Síðan iðnbyltingin hófst snemma á nítjándu öld hefur aukið útstreymi ýmissa lofttegunda, svokallaðra gróðurhúsalofttegunda sem einnig er að finna í lofthjúp jarðar, orðið til þess að eðlileg samsetning lofthjúpsins hefur riðlast. Lofttegundir þessar, sem lofthjúpurinn stendur þó aðeins að litlum hluta af, eru þær sem að gleypa varmageislun frá jörðu og varna því varmatapi. Þannig framkalla þær hin títtnefndu gróðurhúsaáhrif.
Áframhald á auknu útstreymi og samfara aukning gróðurhúsaáhrifa munu þannig hafa áhrif á veðurfar og að öllum líkindum hækka meðalhita á jörðinni. Þetta gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér sem myndu e.t.v helst birtast í hækkun á yfirborði sjávar og breyttu loftslagi, sem gætu auðveldlega sett heilu vistkerfin úr skorðum.
Af þessum lofttegundum er koldíoxíð (CO2) sú lofttegund sem er hvað mikilvægust, en magn hennar í lofthjúpnum hefur aukist gríðarlega í kjölfar bruna ýmissa gerða eldsneytis en einnig vegna aukinnar eyðingar skóga. Aðrar gerðir gróðurhúsalofttegunda eru vatnsgufa (H2O), metan (CH4), dínituroxíð (H2N), óson (O3), brennisteinshexaflúoríð(SF6) og ýmis halógenkolefni. Utan vatnsgufunnar má skrifa aukið magn þeirra allra á reikning hugvitssemi mannsins sem spannar allt frá hrísgrjónarækt og áburðarnotkun til bruna eldsneytis, nýtingu kælikerfa og rafgreiningar áls svo eitthvað sé nefnt.
Í dag er ástandið þannig að koldíoxíðstyrkurinn sem í upphafi iðnbyltingar er talinn hafa verið um 280 ppm (parts per million) er nú um 370 ppm, og mun samkvæmt spám milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í besta falli verða um 500 ppm árið 2090, en í versta falli um 970 ppm.
Á dögunum var greint frá niðurstöðum rannsóknar sem gefa nýjan vinkil á áhrif ryks á loftslagsþróun í kjölfar gróðurhúsaáhrifa. Ryk miðlar nefnilega til lækkaðs hitastigs jarðarinnar með því að endurkasta sólarljósi. Einnig verður ryk til þess að veita sjávarlífverum þann nauðsynlega járnforða sem þær þurfa til að gegna því mikilvæga hlutverki að fjarlægja CO2 úr andrúmsloftinu.
Notað var sérstakt módel til að framkalla mismunandi samspil gróðurfars og loftslags, allt eftir misjöfnu magni koldíoxíðs í lofthjúpi og fylgst með áhrifum þess á ryk. Í stuttu máli kom berlega í ljós að í með auknu CO2 magni má bæði búast við því að vinda lægi og að raki aukist á þurrum og úrkomulausum svæðum eins og Sahara eyðimörkinni, sem mikið af heimsins ryki má rekja til. Einnig myndi hækkaður CO2 styrkur auka ljóstillífun plantna á þessum þurru svæðum sem myndi minnka flatarmál ógróinni svæða og þ.a.l uppsprettu ryks. Tilraunirnar gáfu ástæðu til að ætla að í lok þessarar aldar myndi magn ryks í andrúmslofti hafa minnkað um 20 –36% .
Þannig gætu áður ófyrirséð minnkun á rykmagni haft gríðarleg áhrif á loftslagsbreytingaspár þær sem þegar hafa verið gerðar, þær hinar sömu og aðgerðir alþjóðasamfélagsins til minnkunar á útstreymi gróðurhúsalofttegunda eru miðaðar við. Ryk er því orðinn stærri stuðull í loftslagsjöfnunni en áður, og ekki fráleitt að fleiri stuðlar hennar gætu orðið veigameiri og útkoman eftir því.
Það virðist sífellt sem að tínist eitthvað til í þessum málaflokki sem gefur tilefni til að miða ekki aðgerðir við bestu spár. Það er að minnsta kosti sífellt brýnna að iðnríki heimsins gefi loftlagsbreytingum og útstreymisfyrirheitum alvarlegri gaum- sama hvað hagvexti líður.
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007