Tískuvöruverslun í miðborginni hefur safnað upplýsingum um viðskiptavini sína og ekki sparað frímerkin til að koma upplýsingunum á framfæri við viðkomandi viðskiptavin. Bréfin eru með ýmsu móti en nokkur dæmi eru: „nú er langt síðan þú hefur komið til okkar…“, „eigum föt í þinni stærð [XX] núna…“, „…þar sem þú býrð nálægt okkur er tilvalið að ganga á laugardagsmorguninn í heimsókn til okkar…“, „vorum að taka upp nýja sendingu af buxum í þinni stærð [XX]…“, „…nú er langt síðan þú hefur keypt skyrtu, vorum að fá nýja sendingu, tókum frá fyrir þig í þinni stærð [XX]…“, „… vorum að taka upp nýja sendingu af fatnaði frá [merki sem viðkomandi hefur keypt] sem þér líkar…“.
Farið er yfir keypt fatamerki, búsetu, tíðni verslunarferða og fatastærðir viðskiptavina. Einnig berast jólakort, afmæliskort og jafnvel uppskriftarbæklingar! Ávallt eru bréfin með kærri kveðju starfsmanna annað hvort kvennadeildar eða karladeildar eftir því sem við á.
Ekki skal dæmt um hvort menn hlaupi til og versli meira þegar bréf berst frá versluninni eða fleygi bréfunum beint í ruslið. Óformleg skoðanakönnun bendir þó til þess að fleiri blóti þessu endlausa áreiti og hendi bréfunum eins hratt og kostur er. Nýlega barst eitt bréfið enn frá versluninni. Nú var hins vegar gengið of langt. Bréfið hljóðaði svona:
„Sæll [Jón],
Sumir eru í mesta vanda að velja jólagjafirnar en það verður auðvelt fyrir þig. Hún [Gunna] kom við hjá okkur nýlega svo að við höfum stærðina hennar og vitum svolítið um hennar smekk. Hjá okkur er úrval af kápum, peysum, skóm, buxum og kuldaflíkum. Komdu til okkar tímanlega fyrir jólin, við hjálpum þér að velja og pökkum öllu fallega.
kær kveðja“
Nú er ekki aðeins verið að áreita viðskiptavininn með upplýsingum um smekk hans, stærð og tíðni verslunarferða heldur er farið að senda upplýsingarnar til þriðja aðila. Hvaða aðferð verslunin notar til þess að tengja saman einstaklinga í skrám sínum er ekki þekkt en dæmi eru um að viðkomandi einstaklingar hafi aldrei gefið neitt upp um tengsl sín við aðra viðskiptavini verslunarinnar. Lögmæti þessara aðgerða verða aðrir að dæma um en svona upplýsingagjöf er skammarleg. Það að gefa persónulegar upplýsingar til þriðja aðila án samþykkis viðkomandi er ekki góð auglýsing fyrir verslunina.
Markaðsherferðir og aðferðir fyrirtækja til að koma sér og sínum vörum á framfæri eru misjafnar, allt frá því að vera ósýnilegar til þess að vera sýnilegar og grípandi. Sumar herferðir eru hins vegar óþolandi og ágengar, hér er gott dæmi um slíka herferð. Markaðsherferðir og auglýsingar eru góðar og gildar en menn verða að kunna sér hóf þegar komið er að upplýsingum um einstaka viðskiptavini. Margir hafa einfaldan smekk en svona ókurteisar aðferðir og upplýsingagjöf til þriðja aðila er alls ekki fallið að smekk hvers sem er.
- Einkaframtakið er umhverfisvænna - 10. maí 2007
- Framlagið þitt - 6. desember 2005
- Skotnar snyrtivörur - 6. október 2005