Á undanförnu hafa mál Íbúðalánasjóðs verið talsvert í umræðunni vegna samkomulags innan ríkisstjórnarinnar um að ekki skuli færa afgreiðslu íbúðalána til bankakerfisins. Fjölmargir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst yfir vonbrigðum sínum með þessa ákvörðun, enda bendir margt til þess að heppilegt sé að færa afgreiðslu húsnæðislána í áföngum yfir í bankakerfið. Íbúðalánasjóður sinnti þá aðeins félagslegum íbúðalánum og myndi hagur bæði lántakenda og hins frjálsa markaðar batna til munar við það.
Tillögur félagsmálaráðherra um hækkun hámarksláns og lánshlutfallsins eru enn til umræðu enda eru þar á ferð vanhugsaðar tillögur sem dregnar voru upp úr kosningaloforðaskjóðu Framsóknarflokks í síðustu kosningum. Síðastliðið sumar vöruðu flestar fjármálastofnanir hér á landi við þessum hugmyndum og bent var á að þessar hugmyndir rúmuðust illa innan efnahagsramma ríkisstjórnarinnar.
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn telur að útlánaaukningu Íbúðalánasjóðs geti “grafið undan lausafjárstýringu Seðlabankans, valdið hærri raunvöxtum og raungengi og hækkað íbúðaverð ef henni verði ekki haldið innan strangra marka.” Seðlabanki Íslands og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafa einnig í meginatriðum verið sammála um möguleg efnahagsleg áhrif þessara breytinga og vara við því að farið verði of geyst í hækkun á hámarkslánum og 90% veðsetningarhlutfalls. Þessar tvær stofnanir benda á að fyrirhugaðar breytingar í húsnæðiskerfinu séu eftirspurnarhvetjandi og vinni þannig á móti aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Í júní síðastliðnum var bent á það í mánaðarriti Greiningardeildar Landsbankans að mikilvægt væri að hámarkslánum yrði stillt í hóf og að tímasetningar breytinga yrðu að vera sveigjanlegar. Einnig var því beint til félagsmálaráðherra að hann yrði að vera tilbúinn til þess að fresta eða jafnvel hætta við þessar fyrirætlanir sínar ef ljóst yrði að áhrifin á fasteignamarkað og eftirspurn drægi mjög úr ávinningi íbúðakaupenda.
Það liggur nú þegar fyrir að ríkisstjórnin muni halda sig við 90% lánin en líklegt þykir að félagsmálaráðherra hafi bakkað með tillögur sínar um 18 milljón króna hámarkslán sem hann tilkynnti síðastliðið vor. Samkvæmt útreikningum Greiningardeildar Landsbankans mun fasteignarverð hækka um 10-15% ef hámarkslán verða 18 milljónir og um 8-10% ef hámarkslán verða 12 milljónir. Þessir útreikningar miðast við það að aðlögun markaðarins fari að öllu leiti fram í gegnum fasteignaverð þar sem framboð fasteigna er tregbreytanlegt.
Það er því ljóst að áhrif þessara aðgerða félagsmálaráðherra munu að öllum líkindum verða umtalsverð á fasteignamarkaðnum þó að hámarkslánin verði töluvert lægri en upphaflegar yfirlýsingar gerðu ráð fyrir. Fasteignaverð mun þó með tíð og tíma leita jafnvægis á ný með auknu framboði og í riti Landsbankans er bent á nauðsyn þess að framkvæma þessar breytingar í áföngum til að draga úr hækkunum á fasteignaverði.
Áætlanir félagsmálaráðherra um að keyra í gegn þessar þensluhvetjandi breytingar á húsnæðislánakerfinu verða að teljast nokkuð glapræði að hans hálfu, þar sem löngu er ljóst að íslenska þjóðin stefnir inn í þenslutímabil vegna stóriðjuframkvæmda, sem munu leiða til hækkunar vaxta og gengis. Einnig ganga þessar aðgerðir þvert á þá stefnu ríkisstjórnarinnar að minnka umsvif ríkisins á fjármálamarkaði sem framfylgt hefur verið á síðustu árum.
En eitt er þó víst að háttvirtur félagsmálaráðherra þarf að fara að kynna áætlanir sínar því að sú óvissa sem ríkir á húsbréfamarkaðnum hefur mjög slæm áhrif á íslenskan skuldabréfamarkað. Það kemur alltaf niður á einstaklingum en yfirverð húsbréfa er nú nánast á núlli. Best væri þó að hann myndi falla alveg frá þessum breytingatillögum sínum.
Sjá einnig:
Húsnæðislán til bankanna og Ríkistryggð neyslulán
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007