Þann 5. júní 2002 kom út skýrsla á vegum bandaríska utanríkisráðuneytisins um mansal í heiminum. Þar er minnst á Ísland undir umfjöllun um Eistland ásamt öðrum löndum og heimshlutum en þar segir:
Það var eins og nokkrir fjölmiðlar og hagsmunahópar hefðu himininn höndum tekið þegar þeir heyrðu þetta. Í nokkrum fjölmiðlum var þetta blásið upp og engu líkara af umfjöllun þeirra og sumum viðmælendum en að þetta væri fullnaðarsönnun á því að mansal viðgengist hér á landi í stórum stíl, mest megnis í kringum íslenska nektardansstaði. Einnig voru menn fljótir að nota bandarísku skýrsluna til að réttlæta og verja fyrri málflutning af því þegar íslenskir erindrekar komu heim af ráðstefnu í Eistlandi í síðasta mánuði. En íslensku erindrekarnir fullyrtu við heimkomuna að þeir hefðu orðið áskynja um það frá einhverjum ónafngreindum eistneskum lögreglumönnum að einhverjar ónafngreindar nektardansmeyjar hefðu sagt þeim að þær hefðu verið neyddar til að stunda vændi hér á landi.
Þessar sögusagnir voru blásnar upp í íslenskum fjölmiðlum eins og frægt er orðið. Fjallað var um þetta hér á Deiglunni 5. júní sl. og jafnframt kannaði Ríkislögreglustjóri áreiðanleika sögusagnanna og komst að því að enginn innan eistnesku lögreglunnar kannaðist við þær. Það var greinilegt að nokkrir fjölmiðlar og hagsmunahópar töldu sig hafa farið halloka vegna ummæla Ríkislögreglustjóra og stukku því á skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins þegar hún kom út og fullyrtu að hún sannaði að fréttaflutningurinn af eistneskum sögusögnum hefði verið réttur.
Það er rétt að ítreka að ekki var gerð sérstök úttekt á Íslandi í bandarísku skýrslunni heldur einungis minnst einu sinni á landið í umfjöllun um Eistland. Til að land fái sérstaka umfjöllun miðar bandaríska utanríkisráðuneytið við að 100 einstaklingar eða fleiri séu seldir mansali frá, í gegnum eða til viðkomandi lands. Í skýrslu íslenskrar nefndar sem falið var að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis, bls. 17, sem kom út í þessum mánuði, kemur fram að á tímabilinu 11. júlí 2000 til 29. mars 2001 komu 310 dansmeyjar frá löndum sem ekki eru í EES. Ofan á þá tölu bætast síðan hundruð dansmeyja sem koma frá löndum innan EES. Það er því ljóst að ef mansal viðgengst í kringum nektarstaðina þá er það einungis lítið brot af þeim dansmeyjum sem starfa hér á landi sem hafa orðið fyrir því hræðilega hlutskipti.
Þetta er staðfest í annars nokkuð skynsamri skýrslu íslensku nefndarinnar en þar kemur einnig fram, á bls. 13-14, að:
Það er lítið sem bendir til þess að mansal sé jafn viðamikið hér á landi og sumir fjölmiðlar og hagsmunahópar vilja vera láta. Þvert á móti bendir flest til þess að þetta sé frekar lítið og viðráðanlegt vandamál. Reyndar er líklegt að vísunin í Ísland í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins sé tilkominn vegna atviksins þegar hinar fjóru nektardansmeyjar af Bóhem flúðu í Kvennaatkvarfið og kærðu staðinn (enda ólíklegt að bandarísku skýrsluhöfundarnir hafi haft betri upplýsingar um ástandið á Íslandi heldur en höfundar íslensku skýrslunnar). En samkvæmt áreiðanlegum heimildum Deiglunnar voru dansmeyjarnar einmitt frá Eistlandi.
Það er mikið fagnaðarefni ef vandinn er viðráðanlegur eins og flest bendir til. Þá ætti að vera hægðarleikur fyrir íslensk stjórnvöld að rannsaka mansalið, uppræta það og láta refsa þeim sem eru ábyrgir fyrir þessum hræðilegu glæpum.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020