Liðin vika hefur gefið okkur dægurmálalúðunum margt til að ræða um. Kjör stjórnenda Kaupþings, ummæli forsætisráðherra, skattarannsóknir Jóns Ólafssonar og kaup á þýfi. Líkt og alltaf þá litast ummæli skoðanir fólks af því hvar það stendur í pólitíkinni og hvar þeir til umræðu eru standa. Stundum verður þetta greinilegra, t.d. þegar menn fara að verja málstað sem augljóslega fellur illa að þeirra lífsskoðunum.
Hver vill t.d. segja mér að Jón Steinar yrði bara sáttur ef Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherra, mundi hvetja neytendur til að sniðganga Morgunblaðið og hótaði að setja lög um leiðaraskrif? Eða ef Steingrímur J. Sigfússon mundi hvetja neytendur til að sniðganga bandarískar vörur, allar og alltaf?
Hlutverk stjórnmálamanna frjálsu hagkerfi er að skapa leikreglur og sjá til að þeim sé fylgt. Hlutverk stjórnmálamanna er ekki að hafa puttana í öllu sem kann að gerast og beita sínum persónutöfrum í þágu eins eða gegn öðru. Stjórnmálamanni er auðvitað heimilt eins og hverjum öðrum viðskiptavini og neytanda að geyma fé sitt í þeim banka sem hann kýs, en þegar stjórnmálamenn tjá sig um fyrirtæki á frjálsum markaði segir það sig sjálft að stöðu sinnar vegna verða þeir að fara gætilegar í yfirlýsingum en annað fólk.
Vald ráðherra á Íslandi er mikið. Þeir stýra framkvæmdavaldinu beint, löggjafarvaldinu næstum því beint og dómsvaldinu óbeint með ráðningum í dómarastöður. Það er því ljóst að vilji þeir gera mönnum eða fyrirtækjum lífið leitt þá hafa þeir tækin til þess.
Ég tek ekki undir þær popúlísku raddir sem heyrast í hvert skipti sem laun ráðherra hækka. Ég vil að stjórnmálamenn séu vel launaðir svo þeir þurfi ekki að reiða sig á aðrar, gruggugri lindir við tekjuöflum. En í því hlýtur að felast sú krafa að þeir hvetji ekki, í krafti embættisins, til neyslu á einni mjólkurvöru á kostnað annarrar eða lesturs eins dagblaðs á kostnað annars ag að sjálfsögðu felur það einnig í sér þá kröfu að þeir hvetji ekki landsmenn til að hætta viðskiptum við tiltekinn banka þótt þeim mislíki athafnir stjórnenda hans.
Ummælum og athöfnum Davíðs Oddsonar í kringum þetta mál má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi hætti hann viðskiptum við Kaupþing. Það er allt saman gott og blessað þótt sá fjölmiðlasirkús sem var í kringum atburðinn beri vott um fullmikinn popúlisma, að mati undirritaðs.
Í öðru lagi þá hvatti hann aðra landsmenn til að fara að sínu fordæmi. Slíkar leiðbeiningar ættu menn í hans stöðu að forðast af ástæðum sem áður voru nefndar.
Í þriðja flokki ummæla forsætisráðherra er einhver gerræðislegur samtíningur af fullyrðingum um „tengsl við íslenskan veruleika“, nauðsyn þess að setja reglur um „svonalagað“, tilvitnun í atburði vestanhafs þar sem einhverjir forstjórar hafa verið settir í fangelsi og furðulegar fullyrðingar um „kaup á þýfi“. Þessar fullyrðinar verða ekki skildar öðruvísi en hótanir í garð fyrirtækisins og stjórnenda þess.
Ef umrætt fyrirtæki hefur gerst brotlegt við landslög verður að taka því hins vegar hefur ekkert komið fram sem sannar slíkt og skýringarnar fyrir myndlíkingunni um kaup á þýfi eru vægast sagt klaufalegar. Hugsanlega þó átt við brot á eftirfarandi grein almennra hegningarlaga.
„Nú hefur Ríkislögreglustjóri rannsókn á högum aðila og telst aðili þá sekur um þá glæpi sem grunur liggur á að hann hefur framið uns rannsókn lýkur. Sömuleiðis teljast þeir aðilar sem samskipti eiga við hinn grunaða samsekir um þá glæpi sem hann kann hafa framið á meðan á rannsókn stendur.“
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021