Margir virðast nötra og skelfa yfir sviptingum í fjölmiðlaheiminum þessa dagana og ótti við að innan skamms verði bara fluttar fagrar fréttir af Baugi og Jóni Ásgeiri skýtur upp kollinum á ólíklegustu stöðum. Háværar raddir kalla á lagasetningu, eftirlit og takmarkanir. Guð (eða réttara sagt Davíð) forði okkur frá því að ákveðnir einstaklingar eignist fjölmiðla og mati ofan í okkur sérbakaðar fréttir sem við munum öll gleypa í blindni. Til þess að ráða bót á því að leynilegir eigendur ráðist á ímyndaða andstæðinga sína verður að sjálfsögðu að setja lög. Einhverjir ráðherrar virðast vera þessu fylgjandi, sem eykur líkurnar á því að lög þessa efnis séu á næsta leiti.
Hvers efnis verða slík lög og hvert verður markmið slíkra laga? Hér er rétt að fara varlega en ekki ana út í lagasetningu því menn séu ósáttir við tímabundið ástand á miklum hræringatíma.
Það er sjálfsögð krafa að neytendur viti hverjir eiga fjölmiðla, enda ljóst að þó eigendur séu ekki að ritskoða efni fréttamanna þá er valdið þeirra. Það er einnig hagsmunamál fyrir fjölmiðil sem vill njóta trausts og virðingar að lesendur eða áhorfendur hans viti hver eigandinn sé þannig að neytendurnir geti sjálfir lagt mat á þær fréttir sem þaðan berast. Trúverðugleiki fjölmiðils sem í lengstu lög forðaðist að gefa upp eignarhald sitt yrði varla mikill og hæpið að fréttir sem þaðan kæmu þættu áreiðanlegar til lengdar. Þá verður heldur ekki dregið úr áhrifamætti þess að öðrum fjölmiðlum og landsmönnum öllum er frjálst að hafa uppi um það getgátur hverjir eiga viðkomandi fjölmiðil og / eða benda á ótrúverðugleika þeirra frétta sem þaðan berast. Ef sú ólíklega staða kæmi upp að hér á landi yrði um lengri tíma starfandi fjölmiðill með fréttastofu sem neytendur vissu ekki hver ætti og trúðu fréttum sem þaðan bærust væri kannski ástæða til að skoða hvort og hvernig lög mætti setja um gegnsæi á eignarhaldi fjölmiðla.
Sýnu alvarlegri eru hins vegar hugmyndir um að takmarka að einhverju leyti eignarhald á fjölmiðlum. Það verður ekki hjá því komist að spyrja hvort markmið slíkra laga yrði að koma í veg fyrir að ákveðnir aðilar eignuðust fjölmiðla eða að koma í veg fyrir að margir fjölmiðlar söfnuðust á fárra manna hendur? Í því sambandi verður að líta til þess að hér á landi eru í gildi samkeppnislög sem ættu að nýtast á fjölmiðlamarkaðnum líkt og öðrum mörkuðum til að koma í veg fyrir að einstakir aðilar öðlist markaðsráðandi stöðu. Staðreyndin er hins vegar sú að mesta ógnin við fjölmiðla hér á landi, í samkeppnislegu tilliti, er ríkisrekinn fjölmiðill en ekki einstaka fjölmiðlar í einkaeigu.
Það sem hins vegar er mikilvægast í þessu sambandi er að hér ríkir, alla vega enn sem komið er, frelsi til að eiga og reka fjölmiðla. Sú gróska og sá gríðarlegi fjöldi fjölmiðla og fréttamiðla sem reknir eru hér á landi, hvort sem er í formi svæðisfrétta, netmiðla, útvarps- eða sjónvarpsstöða bera því glöggt vitni að lítil ástæða er til að hafa áhyggjur.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020