Nú fer óðum að styttast í sveitar-stjórnarkosningar. Þá fer að vænkast hagur auglýsingastofa og markaðssérfræðinga þar sem gífurlegum fjármunum hefur verið eytt í þjónustu þeirra fyrir kosningar á síðustu árum. Í ár eru engar kosningar á dagskrá og forsetakosningar féllu niður í fyrra sökum klúðurs hjá atvinnuforsetaframbjóðandanum Guðmundi Rafni Geirdal og sérkennilegra lögskýringa hjá Ástþóri Magnússyni hjá Friði 2000.
En til upprifjunar þá virðist Ástþór hafa gengið út frá því að búið væri að setja ákvæði í íslensk lög sem veitti honum undanþágu frá lögmæltum framboðsfresti. Meint undanþága Ástþórs gæti hafa hljóðað á þá leið að allir þyrftu að skila inn framboðum til embættis forseta íslenska lýðveldisins ásamt undirskriftum innan tiltekins frests nema ef sá hinn sami héti Ástþór Magnússon eða væri félagi í Friði 2000 en þá fengi viðkomandi aukinn frest og gæti líklegast skilað inn framboði á kjördag. Lögfræðiáhugi Ástþórs er löngu orðinn landsþekktur síðan árið 1996 þegar hann var í forsetaframboði og túlkaði Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins þannig að forseti væri einvaldur og þyrfti ekki að láta ráðherra fara með völd sín. Eftir á að hyggja er það alveg með ólíkindum að einhver skyldi ekki hjálpa þessum góðu mönnum að komast í framboð í fyrra með tilheyrandi hamagangi og auglýsingaskrumi.
Augu manna munu fara að beinast að kosningunum í Reykjavík á næsta ári þar sem R-listinn hefur haldið um stjórnartaumana síðan 1994. Þá munu áróðursmeistarar og auglýsingamenn R-listans leggjast á eitt til að sýna Reykvíkingum hversu miklu sældarlífi við höfum lifað undir styrkri stjórn Ingibjargar Sólrúnar og Helga Hjörvar. Þeim mun vafalaust takast vel til og í kjölfarið mun einhver hluti Reykjavíkinga trúa því að smjör drjúpi af hverju strái í höfuðborginni. Því mun einnig verða haldið fram að þeir sem gagnrýni R-listann séu í raun og veru öfundsjúkir, valdagráðugir, skúrkar sem séu að ljúga upp á góðu vinstri mennina sem í raun megi ekkert aumt sjá án þess að spreða peningum í það.
En það er bara einn galli á gjöf Njarðar. Á bak við glansmynd R-listans blasir við ófögur sjón því R-listinn hefur allt frá því að hann náði völdum, árið 1994, staðið þannig að málum að góðæris hefur ekki orðið vart í Reykjavík. R-listinn hefur í raun stolið góðærinu af Reykjavíkingum. Þetta hefur hann gert með gegndarlausri skuldasöfnun sem hefur leitt til ótrúlegrar aukningar á álögum á Reykjavíkinga.
Auðvitað hækkuðu vinstri mennirnir í R-listanum útsvarið. Síðan snéru þeir sér að óbeinu sköttunum eins og sjá má t.d. á þeim fáránlega háu stöðumælagjöldum og stöðumælasektum sem Reykvíkingum er gert að greiða.
Þá hefur R-listinn fundið upp nýjar og ferskar leiðir til að blóðmjólka Reykvíkinga þegar aðrar hafa þrotið sbr. holræsaskattinn fræga. Á meðan aðrir borgarar þessa lands hafa notið góðs af styrkri efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafa Reykvíkingar setið í súpunni og ekki fengið að njóta góðærisins. Er það nokkur furða að flestir hafa kosið að flytja í Kópavoginn en ekki til hinnar glæstu höfuðborgar og njóta þar ávaxta vinstri manna.
Þessi hryggðarmynd ætti svo sem ekki að koma á óvart. R-listinn er eins og allir vita valdabandalag framsóknarmanna, þriggja látinna flokka og tveggja nýfæddra. Stefna valdabandalagsins gengur einungis út á það að sitja við kjötkatlana og halda Sjálfstæðisflokki frá völdum enda var það yfirlýst markmið þegar að bandalagið var stofnað. Hugsjónir eru aukaatriði í þessu öllu og við blasir að R-listinn eyðir fjármunum Reykvíkinga stefnulaust út og suður til að kaupa sér atkvæði í næstu kosningum. Það er engin ábyrg fjármálastefna hjá R-listanum eða ráðdeild í rekstri borgarinnar. Það er vegna þess að R-listinn er eingöngu valdabandalag gegn Sjálfstæðisflokknum og til þess að halda völdum verður R-listinn að eyða fjármunum Reykvíkinga sem aldrei fyrr. R-listinn væri því að vinna gegn markmiðum sínum og tilgangi með ábyrgri fjármálastefnu.
Hinn kaldi raunveruleiki er sá að þegar R-listinn síðan tapar borginni mun hann augljóslega leysast upp og enginn mun þurfa að bera ábyrgð á skuldasöfnuninni heldur munu flokkarnir (látnir og lifandi) sem að honum standa firra sig ábyrgð. Það er sorglegt að jafnvel þótt Reykvíkingar sjái nú í gegnum glansmyndina þá mun aldrei nokkur maður innan R-listans verða dreginn til ábyrgðar fyrir óráðsíuna sem nú er í gangi.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020