Frá því að Saddam Hussein tók formlega við völdum í Írak árið 1979 og þar til hann var hrakinn frá völdum í vor, er talið að 290 þúsund einstaklingar hafi horfið í landinu. Samkvæmt skýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch voru flestir þeirra myrtir. En þrátt fyrir að Saddam hafi með kerfisbundnum hætti losað sig við um eitt prósent þjóðarinnar, kemst hann varla með tærnar þar sem aðrir fjöldamorðingjar sögunnar hafa hælana. Í grein í tímaritinu The Atlantic er greint frá rannsókn R.J. Rummels, prófessors við háskólann á Hawaii, en hann telur að ríkisstjórnir hafi myrt um 170 milljónir eigin þegna á síðustu öld. Á sama tímabili létust um 34,4 milljónir í stríðum, hvort tveggja innan og á milli ríkja.
Til að setja þessa tölu í samhengi má benda á að ríki með 170 milljónum íbúa væri í dag sjötta fjölmennasta ríki heimsins. Erfitt er að áætla nákvæmlega hversu margir hafa verið fórnarlömb ríkisstjórna, en tvær bækur Rummels, Death by Government og Statistics of Democide, gefa góða vísbendingu. Þar færir hann rök fyrir því að ríkisstjórnir hafi myrt þennan fjölda með ýmsum hætti, til að mynda með því að svelta fólk viljandi, með nauðungarvinnu, með aftökum án dóms og laga og auðvitað hreinræktuðum þjóðarmorðum.
Þjóðarmorð eru líklega þekktasta aðferðin til að öðlast völd innan ríkja. Þá taka stjórnvöld sig til og drepa ákveðinn hóp manna sem á einhvern hátt ógnar tilvist þeirra, hvort sem er með fjölda sínum, fjármagni eða menntun. Algengast er þó að ráðist sé gegn ákveðnum þjóðernishópum. Á 20. öld varð hins vegar ákveðin breyting sem vert er að minnast á. Fram að því réðust þjóðarmorð yfirleitt af því hver hópurinn væri, en á 20. öld virtist það skipta meira máli hvar hópurinn væri. Fjölgun mannkyns hefur leitt til þess að landsvæði er orðið dýrmætara en áður, auk þess sem barátta um takmörkuð gæði svæða verður oft á tíðum hörð. Það er því ekki að ástæðulausu sem margir vilja meina að vatnsskortur verði eitt helsta öryggisvandamál framtíðarinnar.
Hugmyndafræði skipti einnig töluverðu máli þegar kemur að þjóðarmorðum 20. aldar. Hitler, Stalín og Maó losuðu sig allir við stóran hluta þjóða sinna, Rummel telur að þeir þrír séu ábyrgir fyrir dauða um það bil 100 milljóna manna. En þegar kemur að hlutföllum slær enginn við Pol Pot, sem á árunum 1975-1979 myrti um þriðjung kambódísku þjóðarinna. Hitler drap um sex prósent þeirra sem bjuggu á þeim svæðum Evrópu sem Nasistar stjórnuðu, Saddam eins og áður sagði var stöðvaður áður en hann komst yfir eitt prósent þjóðarinnar. Ríki sem búa við lýðræðislegt stjórnarfar voru ábyrg fyrir dauða tæplega tveggja milljóna einstaklinga á síðustu öld.
Barbara Harff, prófessor í stjórnmálafræðum við bandaríska flotaháskólann, hefur þróað tölfræðilíkan sem reiknar út hvaða þjóðir eru líklegastar til að drepa eigin þegna. Þegar hún skoðaði þá 21 þjóð sem átti í vopnuðum átökum árið 2001 komst hún að því að tæplega helmingur þeirra væri í áhættuhópi. Í Afganistan, Alsír, Búrma, Burundi, Kongó, Eþíópíu, Írak, Rúanda, Sierra Leone, Sómalíu og Úganda má finna pólitíska, efnahagslega og félagslega þætti sem gera það að verkum að ríkin eru í sérstökum áhættuhópi.
Þessi listi ætti varla að koma áhugafólki um alþjóðastjórnmál mikið á óvart. Þarna er að finna nokkur af fátækustu ríkjum heims, ríki sem hafa misst marga af eigin þegnum í borgarastyrjöldum á síðustu tveimur árum. Spurningin er hins vegar sú til hvaða ráðstafana alþjóðakerfið eigi að grípa til að koma í veg fyrir þessa þróun?
Ósjálfrátt hvarflar hugurinn til Íraks, en innrás Bandaríkjamanna í landið hefur valdið gríðarlegum deilum innan alþjóðakerfisins. Mikið var gert úr þeirri ógn sem heiminum stafaði af Saddam Hussein en því miður virtist gleymast í umræðunni að íraska þjóðin var í mun meiri hættu. Fjöldagrafir sem hafa fundist sýna aðeins brot þeirra grimmdarverka sem fylgisveinar Saddams frömdu á rúmum tveimur áratugum. Helst er hægt að gagnrýna alþjóðakerfið fyrir að grípa ekki fyrr til ráðstafana gegn harðstjóranum.
Eftir stendur spurningin um það hvort og þá hvenær eigi að grípa til aðgerða gegn einstökum ríkjum? Andstæðingar hernaðaraðgerða benda iðulega á fjölda óvopnaðra borgara sem falla í innrásum. Aðrir benda hins vegar á að slíkt mannfall sé ásættanlegt þegar miðað er við aðgerðir stjórnvalda gegn eigin þegnum. Samningar við harðstjóra hafa ekki gefist vel í sögu 20. aldarinnar og þá hafa styrkir alþjóðakerfisins iðulega verið misnotaðir af einstökum þjóðfélagshópum.
Sá sem þetta skrifar er ekki að hvetja til þess að gripið verði til vopna gegn hverjum þeim sem gerist sekur um morð á eigin þegnum. Það er hins vegar auðvelt að álykta sem svo að mannskepnan sé í eðli sínu vond og stöðugt þurfi að hafa auga með þeim sem sækjast eftir valdi og nota það í eigin þágu. Ávallt þarf að vega og meta alla valkosti en stríð má aldrei verða annað en síðasti möguleikinn. Stríð þarf hins vegar að vera raunverulegur valmöguleiki, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005