Íslenska ríkið hefur frá 1991 farið mikinn í einkavæðingu og nú eru örfá fyrirtæki eftir í eigu þess. Síminn er mest áberandi þessara fyrirtækja og hefur verið mset í umræðunni. Sitt sýnist hverjum um einkavæðinguna. Sumir segja að með því að selja símann verði honum breytt úr þjónustufyrirtæki í gróðafyrirtæki, sem ku vera slæmt samkvæmt þeirra kokkabókum (gárungar sem hafa reynta að hringja í grænt númer þjónustuvers Símans segja þó að hann falli undir hvoruga skilgreininguna). Flestir sem hafa góðan skilning á hagfræði átta sig illa á þessari kenningu og telja að sala Símans yrði mjög til góða, þótt sumir þeirra telji að grunnkerfi símans ætti að vera skilið frá símaþjónustunni.
Þegar netbólan fræga sprakk hrundi verð tæknifyrirtækja og fyrirhuguð sala Símans fór fyrir bí. Nú virðist einhver hreyfing vera komin á málin aftur og heyrst hefur að nokkrir aðilar hafi sýnt fyrirtækinu áhuga. Að sjálfsögðu eru Björgúlfsfeðgar meðal þeirra sem rætt er um í þeim efnum, enda hafa þeir hleypt svo miklu nýju blóði í viðskiptalíf landsins að flesta svimar yfir því og sumir liggja enn í yfirliði.
Björgúlfur Thor Björgúlfsson er meðal fjárfesta sem hafa boðið í búlgarska landsímann BTC, en þar hafa þeir feðgar áður keypt Balkanpharma af ríkinu og voru valdir fjárfestar ársins í kjölfarið. Góðar líkur eru taldar á að Björgúlfur og viðskiptafélagar hans hreppi hnossið. Nú hefur Björgúlfur stungið upp á því að Síminn taki þátt í fjárfestingunni og veiti þar að auki ráðgjöf við endurskipulagningu rekstrarins.
Þátttaka Símans í ævintýrinu gefur þeim samband við markað sem er þónokkuð á eftir okkur hvað varðar tækni og þjónustu og reynsla og þekking á lausnum í fjarskiptum gæti reynst dýrmæt þar. Þátttaka Björgúlfs Thors er líka traustvekjandi og gefur aukna von um að fjárfestingin verði arðvænleg, a.m.k. ef miðað er við það sem á undan er gengið.
Það er aftur á móti áhugavert að velta því fyrir sér hvort íslenskt ríkisfyrirtæki eigi að taka þátt í þessu. Er yfirleitt rétt að íslenska ríkið fjárfesti í búlgörsku ríkisfyrirtæki? Það hljómar í það minnsta eins og brandari af bestu gerð. Það er ekki mjög einfalt að svara spurningunni, en hún sýnir þó fram á hversu illa fer á því að ríkið eigi fyrirtæki á borð við Símann.
Skoðun mín er sú að ríkisfyrirtæki ætti ekki að fjárfesta á þennan hátt í öðrum fyrirtækjum, hvað þá í öðrum löndum. Það samræmist ekki markmiðum opinberra aðila að stunda áhættufjárfestingar. Gott dæmi um slíkt eru kaup Raufarhafnarhrepps á bréfum í DeCode. Þannig færi best á að Björgúlfur Thor tæki við tólinu úr höndum ríkisins áður en beina línan til Búlgaríu verður opnuð. Maður yrði þá allavega ekki hræddur um að svarað yrði á búlgörsku í síma 800 7000.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021