Vangaveltur um tímann

Tíminn hefur frá örófi alda valdið mönnum heilabrotum. Þetta mikilvæga hugtak hefur stöðug áhrif á líf okkar. Án þess að velta því mikið fyrir okkur erum við flest í stöðugu kapphlaupi við tímann sem virðist líða hjá án þess að nokkurt okkar fái rönd við reist.

Upphaf:

Tíminn hefur frá örófi alda valdið mönnum heilabrotum. Þetta mikilvæga hugtak hefur áhrif á líf okkar á hverjum einasta degi. Án þess að velta því mikið fyrir okkur erum við flest í stöðugu kapphlaupi við tímann sem virðist líða hjá án þess að nokkurt okkar fái rönd við reist.

Hægt er að hugsa sér tímann sem fjórðu víddina sem nauðsynleg er til að staðsetja punkt í kerfi. Ef kerfið er kyrrstætt, miðað við annað viðmiðunarkerfi, nægja okkur þrjú hnit til að staðsetja punkt. Ef kerfin eru hins vegar á ferð, eins og t.d. alheimurinn, er nauðsynlegt að bæta við fjórða hnitinu.

Vangaveltur um tímann hafa lengi verið mikilvægur þáttur í störfum heimspekinga og náttúruvísindamanna. Mikilvægasta forsenda stórs hluta vísindastarfs eru tímamælingar sem gefa til kynna þróun og breytingar með tilliti til ýmissa annarra breytilegra þátta.

Í fyrstu voru notaðar einfaldar aðferðir til að mæla tíma og gera má ráð fyrir að forfeður okkar hafi byggt sínar mælingar, eins og mörg önnur dýr í náttúrunni, á breytingum í árstíðum. Nú á dögum eru nákvæmar tímamælingar nauðsynlegar til að ná hraða nútímaþjóðfélags auk þess sem þær gegna lykilhlutverki í vísindum og þar með tækniframförum.

Skynjun okkar á tímanum er mismunandi og hafa flestir fundið fyrir því að tíminn virðist líða mishratt. Stundum er tíminn fljótur að líða og stundum finnst okkur eins og augnablikið hreyfist með hraða snigilsins, oftast þegar fengist er við eitthvað sem þykir leiðinlegt. Þessi skynjun er vissulega ekki nákvæm því að breyting á tíma nokkuð stöðug og eykst eða minnkar ekki mikið frá einu augnabliki til annars.

Vert er þó að athuga tíminn er breytilegur. Flestum finnst þessi staðreynd ótrúleg og ekki að ósekju. Einn fremsti vísindamaður sem uppi hefur verið, Isaac Newton, taldi tímann fasta og byggði kenningar sínar um aflfræði á því. Sá misskilningur var þó leiðréttur í afstæðiskenningum Alberts Einstein en hann sýndi fram á að tími væri breytilegur með hraða. Að tíminn liði mishratt í kerfum með ójafnan afstæðan hraða. Í flestum útreikningum er þó enn notast við aðferðir Newtons þar sem fyrir hraða sem er töluvert minni en hraði ljóssins, sem er um 300.000 km/sek., er skekkjan óveruleg.

Fræg dæmisaga sem varpar ljósi á hvað átt er við með afstæði tímans er þversögnin eineggja tvíburann sem ferðast í geimflaug á hraða nærri ljóshraða. Án þess að skýra þversögnina í þaula er dæmisagan í stórum dráttum eitthvað á þessa leið: Hugsum okkur tvíbura búna atómklukkum sem mæla tímann nákvæmlega. Annar þeirra ferðast átta ljósára leið í eldflaug út í geim á hraða sem er nálægt ljóshraða, t.d. 80% af hraða ljóssins eða um 240.000 km á sekúndu. Þversögnin, sem reyndar hefur sýnt fram á að er ekki þversögn, segir að fyrir tvíburann sem varð eftir tók ferðalagið um 20 ár en einungis 12 ár fyrir þann sem ferðaðist! Án þess að fara í nánar útskýringar virðist tímamæling tvíburans sem ferðast ganga hraðar en tvíburans sem varð eftir og öfugt.

Tími hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir okkur öll. Hvort sem það er tilhlökkun eða kvíði fyrir framtíðinni eða eftirsjá í fortíðinni hefur hugsunin um væntanleg eða liðin augnablik mikil áhrif á okkur. Líklega af þessari ástæðu er tíminn vinsælt viðfangsefni í bókmenntum, hvort sem er í fagurbókmenntum eða vísindaskáldskap. Ein frægasta skáldsaga um tímaferðalög er án efa saga H.G. Wells um tímavélina, að ógleymdum kvikmyndunum Back to the Future 1, 2 og 3 þar sem söguhetjurnar ferðast fram og til baka um tímann eftir hentugleik og upplifa bæði fortíðina og framtíðina. Því miður er mjög ólíklegt að hægt verði að ferðast aftur í tímann þar sem sýnt hefur verið fram að slík ferðalög eru ómöguleg vegna þeirra fræðilegu takmarkanna sem við þekkjum í dag. Vonandi er þó bót í máli fyrir einhvern að vita að við ferðumst fram í tímann á hverjum degi.

Mat manna á tímanum hefur verið mismunandi eftir löndum og menningarheimum. Í sumum trúarbrögðum hefur tíma, þ.e. tími mannanna á jörðinni, verið talinn ganga í hringi þar sem fólk deyr og fæðist aftur og aftur.

Í öðrum trúarbrögðum er því haldið fram að tíminn hafi verið búinn til og eigi eftir að eyðileggjast í einhvers konar heimsendi. Sumir grískir heimspekingar trúðu því jafnvel að tíminn væri blekking og raunveruleikinn væri óbreytanlegur og hreyfingarlaus.

Hvort sem tíminn sé blekking eða ekki er ljóst að vangaveltur um hann geta leitt af sér álíka margar spurningar og svör. Þó má ímynda sér, þó ekkert sé um það fullyrt, að allt sem hefur upphaf hafi endi (Véfréttin, Matrix: Revolutions).

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.