Allir þekkja mörg dæmi þess að hlutir séu flóknari en þeir þurfa að vera. Klassískt dæmi er vídeótækið sem ekki er hægt að stilla og skattkerfið sem er alltof flókið. Yfirleitt er hægt að finna einfaldari leið ef leitað er að henni, sama hvað á í hlut. Það er ekki hægt að réttlæta það að hlutir séu flóknir þegar þeir geta verið einfaldir.
Mikil verðmæti fara forgörðum þegar hlutir eru flóknari en þeir þurfa að vera. Hönnun einfaldra kerfa krefst yfirleitt talsverðar skipulagningar og markvissrar skapandi hugsunar en það þýðir ekki endilega aukin útgjöld. Þvert á móti stuðlar það á endanum til hagvaxtar þar sem einföld kerfi er hægt að þróa hraðar og aðlaga að breytingum betur en flókin kerfi. Með einföldun má ná árangri án þess að eyða peningum.
Einfaldar lausnir verða ekki til sjálfu sér. Það er engin náttúrleg þróun í átt til einföldunar enda verða kerfi flóknari með tímanum sé ekki gripið til markvissra gagnaðgerða. Það stafar að miklu leyti af því að sífellt þarf gera breytingar og bæta við nýjungum ásamt því að þeir sem hafa vanist flækjunni taka ekki lengur eftir henni. Þegar nýjungum er bætt við er ekki raunhæft að hanna allt frá grunni. Við lifum í heimi þar sem síbreytileg verkefni koma upp sem kalla á breytingar og aðlögun að nýjum aðstæðum en það skiptir máli hvert þær breytingar leiða. Með skipulagsbreytingum og markvissri hugsun má oft ná hagræðingu.
Edward de Bono hefur skrifað fjöldan allan af bókum um hugsun og aðferðir til að árangurinn af hugsuninni verði markvissari og meiri. Í nýlegri bók sinni Simplicity fjallar hann um mikilvægi einfaldleikans og hvernig hægt sé að einfalda flókna hluti.
De Bono setur fram skemmtilega hugmynd í bók sinni um það að koma á fót Einföldunarstofnun. Einföldunarstofnunin yrði umsagnaraðili um lög og reglugerðir. Hugmynd hans er ekki að umsagnir stofnuninnar hefðu lagalegt gildi heldur væru þær leiðbeinandi. Stofnunin hefði heimild til þess að setja á stofn starfshópa og nefndir til að vinna að einföldun á þeim hlutum sem þættu vera of flóknir. Stofnunin hefði jafnframt kennsluskyldu til að miðla af þeirri þekkingu sem safnaðist saman innan hennar.
Enn ein eftirlitsstofnunin hugsa eflaust margir með sér en tilfellið er að ef hlutir eru flóknari en þeir þurfa að vera þá fara verðmæti forgörðum. Það eitt gæti verið næg ástæða til að réttlæta tilveru stofnunar sem þessarar. Aðrir gætu haldið því fram að flókin kerfi væru nauðsynleg til að halda upp eðlilegu atvinnustigi. Það að flókin kerfi krefjist sérhæfðs vinnuafls er í sjálfu sér rétt en ruglingurinn er sá að ætla að framleiðnin sé einhver í tímasóuninni. Að vinna óþarft verk vegna óþarflega flókins kerfis er ef ekki beinlínis heimskulegt þá hrein tímasóun. Sömuleiðis er mikilvægt að benda á að Einföldunarstofnun þyrfti ekki að leiða til frelsisskerðingar á nokkurn hátt ef rétt væri að henni staðið. Þvert á móti myndi hún leiða til aukins frelsis.
Mikilvægt er að takast á við þau verkefni sem framundan eru. Stór hluti þeirra verkefna sem blasa við eru á ábyrgð ríkisins en önnur á ábyrgð einkaaðila en mikilvægust er eflaust ábyrgð einstaklingsins að sætta sig ekki við of flókin kerfi. Allar hugsandi manneskjur ættu að boða fagnaðarerindi einfaldleikans og endurskoða sífellt skoðanir sínar, orð og athafnir í takt við raunveruleikann með einfaldleikann að leiðarljósi.
- Álæði - 22. maí 2005
- Kosningar - 27. október 2004
- Á tröppum spítalanna - 29. september 2004