Í gær samþykkti efri deild hollenska þingsins frumvarp sem leyfir líknardráp eða sjálfsmorð með aðstoð læknis. Þetta hefur vakið mikla athygli víða um heim, enda er Holland líklega fyrsta landið til að leyfa þetta með lögum. Þetta mál vekur upp gríðarlega stórar siðferðilegar spurningar og umræðan einkennist skiljanlega oft af miklum tilfinningaþunga.
Hollendingar eru þó ekki algjörir ,,frumkvöðlar” á þessu sviði því árið 1996 varð sjálfsmorð með aðstoð læknis löglegt í Oregonfylki í Bandaríkjunum. Um síðustu áramót höfðu 70 Oregonbúar svipt sig lífi með aðstoð læknis síðan fyrsta manneskjan gerði það í skjóli laganna í mars 1998. Málið hefur verið mjög umdeilt í Oregon sem og í öðrum fylkjum Bandaríkjanna.
Í 46 fylkjum eru líknardráp sem þessi sérstaklega tiltekin í lögum sem refsivert athæfi. Áfrýjunardómstólar í Washingtonfylki og New York úrskurðuðu að lög gegn líknardrápum að þessu tagi brytu í bága við stjórnarskrána en hæstiréttur ógilti síðar þann úrskurð og gaf í skyn að ekkert væri því til fyrirstöðu að líknardráp væru sérstaklega leyfð í hverju fylki fyrir sig.
Í nokkrum öðrum fylkjum Bandaríkjanna hafa verið lögð fram lagafrumvörp til að leyfa líknardráp en þau hafa hvergi náð fram að ganga. Eins hafa einstaklingar sem leitað hafa til yfirvalda eða dómstóla til að fá aðstoð við sjálfsvíg ekki náð sínu fram. Svo kaldhæðnislega sem það hljómar virðist hæstiréttur Bandaríkjanna eiga í erfiðleikum með að úrskurða sérstaklega um rétt einstaklinga á þessu sviði þar sem enginn hefur enn lifað nægilega lengi til að fara með málið alla leið.
Skýrslur heilbriðgðisyfirvalda í Oregon fjalla á jákvæðan hátt um reynsluna af lögunum þar og sýna að sú alda sjálfsvíga sem andmælendur laganna spáðu varð ekki að veruleika. Einnig virðast þeir sem nýta sér lögin koma úr öllum þjóðfélagsstigum en ekki aðeins bágstaddir og ómenntaðir eins og andstæðingar héldu fram.
Það er ljóst að aldrei fæst botn í þessa umræðu og í Oregon og Hollandi verða þessi lög sífellt í endurskoðun og umræðu. Þetta á ekki síður eftir að verða hitamál annars staðar og líklegt er að innan fárra ára verði þetta mál uppi á borðinu hér heima. Fyrir nokkrum árum fór fram talsverð umræða hér á landi um líknardráp og voru menn mjög á öndverðum meiði. Ég geri ekki ráð fyrir að þetta mál sé ástæða ráðherraskipta í heilbrigðisráðuneytinu en ég hlakka engu að síður til að heyra afstöðu nýs heilbrigðisráðherra til þessa umdeilda máls.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021