Nú liggur fyrir Alþingi í fimmta skiptið tillaga um breytingar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 frá Kolbrúnu Halldórsdóttur. Breytingartillaga Kolbrúnar gengur aðallega út á að gera kaup á vændi og hvers kyns kynlífsþjónustu refsiverð.
Rétt er að geta þess að Kolbrún hefur nú, á sniðugan hátt, náð að fela öfgarnar sem fram komu í síðustu fjórum tilraunum hennar. Í fyrri tillögum hefur það nefnilega varðað hvern þann sem býður upp á nektarsýningar fjögurra ára fangelsi. Sömu refsingu skyldi varða að skipuleggja og reka kerfisbundna klámþjónustu gegnum síma eða tölvur. Núna hefur Kolbrún breytt frumvarpinu á þann veg að í staðinn er komið ákvæði um að kaup á hvers kyns kynlífsþjónustu varði tveggja ára fangelsi. Er ljóst að þetta nýja ákvæði er miklu víðtækara en fyrri hugmyndir hennar gerðu ráð fyrir þrátt fyrir að það láti minna yfir sér. Áður snéru ákvæðin eingöngu að seljendum og eigendum kynlífsþjónustu en núna ná þau yfir kaupendur á hvers kyns kynlífsþjónustu. Jafnframt passar Kolbrún sig á því að minnast ekki einu orði á þetta ákvæði í greinargerð með textanum þrátt fyrir að verið sé að leggja til tveggja ára fangelsi fyrir þessa háttsemi. Er því búið að setja þessar öfgaskoðanir í miklu betri umbúðir og fela þær rækilega.
Kolbrún telur væntanlega að frumvarpið sé líklegra til að fá brautargengi í felubúningi og er það líklega rétt hjá henni. Frumvarpið hefur iðulega verið kolfellt á Alþingi en nú er af sem áður var. Fjöldi annarra þingkvenna hafa gerst meðflutningsmenn með henni og koma þær konur úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum. Það skal ósagt látið hvort allar þingkonurnar geri sér fyllilega grein fyrir öfgafullum hugmyndum höfundar frumvarpsins sem hann hefur ítrekað reynt að troða inn í lög. Undirritaður leyfir sér að efast um að allir meðflutningsmennirnir styðji þá fordóma og öfgar sem eru undirliggjandi.
Í pistli sem birtist þann 12. mars 2003 fjallaði undirritaður um þessa hugmynd Kolbrúnar eftir að hún hafði verið felld í fjórða skiptið. Var þar bent á rök faglegrar nefndar, sem dómsmálaráðherra skipaði til að koma með úrbætur vegna kláms og vændis, fyrir því að hafna því að gera kaup á vændi refsiverð. Síðan kom m.a. fram:
Í þessu samhengi er rétt að velta upp hvort hjónin sem voru dæmd í síðustu viku til skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir vændi hefðu verið nokkuð betur sett ef hugmyndir Kolbrúnar væru orðnar að veruleika. Hjónin auglýstu þjónustu sína opinberlega og var það eina ástæðan fyrir því að upp um þau komst. Reynslan af sænsku leiðinni sýnir að ef þungar refsingar lægu við því að leita til vændiskvenna þá hefði þessi starfsemi hjónanna líklega verið neðanjarðar og aldrei hefði upp um hana komist. Þá væri útilokað að veita þessu fólki aðstoð.
Að sjálfsögðu er rétt að afnema refsingar fyrir vændi eins og frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir. Það mun gera alla aðstoð við þessa ógæfusömu einstaklinga auðveldari. Reyndar er rétt að benda á hræsnina í því að ekki nokkrum einasta manni virðist hafa dottið í hug að hjálpa vændiskonunni. Í staðinn var hún eingöngu ákærð og dæmd til skilorðsbundnar fangelsisvistar þrátt fyrir miklar yfirlýsingar fjölda aðila um neyð vændiskvenna og þörf fyrir aðstoð. Væri ekki nær að reyna að hjálpa einu vændiskonunni sem lögreglan hefur náð að klófesta í stað þess að setja gerræðisleg lög sem munu á endanum minnka möguleikana á aðstoða fólk í vændi? Sama hvort okkur líkar betur eða verr þá mótar eftirspurnin markaðinn og ef kúnnarnir eiga von á fangelsi fyrir hegðun sína þá neyðir það einstaklinga í vændi til að leyna starfsemi sinni enn frekar þrátt fyrir að þeir eigi ekki yfir höfði sér refsingu.
Öllum er frjálst að hafa sínar siðferðisskoðanir sama hversu öfgakenndar þær eru. Þeir sem eru öfgafyllstir verða hins vegar alltaf að sýna þeim umburðarlyndi sem eru ekki á sömu skoðun. Svona tilraunir til að gera ákveðnar öfgasiðferðisskoðanir að lögum og setja þá í fangelsi sem eru á annarri skoðun bera ekki vott um slíkt umburðarlyndi heldur algjöra andstöðu þess.
Það er því rétt að spyrja enn á ný hvort alþingismenn vilji í raun og veru fara að fylla fangelsi landsins með kaupendum vændis, nektardansa, klámefnis og símakláms. Lagasetningarvaldinu fylgja mikil völd og mikilvægt að alþingismenn sem og aðrir misbeiti þeim ekki í annarlegum tilgangi. Kolbrún Halldórsdóttir hefur ítrekað reynt að troða sínum fordómum inn í þjóðfélagið án árangurs. Vonandi mistekst henni enn á ný.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020