Það mikilvægasta fyrir öll félög sem vinna að hagsmunum félagsmanna sinna er sjálfstæði félagsins. Röskva, samtök félagshyggjufólks, hefur verið við völd í Háskólanum í 10 ár og hefur því umboð stúdenta til að stjórna hagsmunabaráttu þeirra í Stúdentaráði. Það er algjört grundvallaratriði að Stúdentaráð, undir stjórn Röskvu, láti stjórnast af hagsmunum umbjóðenda sinna en ekki af utanaðkomandi aðilum. Alkunna er að fylkingarnar í Stúdentaráði hafa um árabil notið aðstöðu hjá félagasamtökum, fyrirtækjum og stjórnmálaflokkum í kringum kosningar í Háskólanum. Samkvæmt heimildum, sem Deiglan hefur ástæðu til að treysta, hefur Röskva á 10 ára valdaferli sínum ekki einvörðungu nýtt sér aðstöðu stjórnmálaflokka heldur þegið bein fjárframlög frá vinstri flokkunum og hafa vinstri flokkarnir því beinlínis átt þátt í að fjármagna kosningabaráttu Röskvu. Vísbendingar eru um að Röskva láti þessi miklu fjárhagslegu tengsl við vinstri flokkana stjórna framferði sínu í Stúdentaráði.
Þetta kemur þeim sem hafa fylgst með stúdentapólitíkinni ekki á óvart þar sem Röskva hefur oft á valdatíma sínum virst vilja fremur koma höggi á ríkisstjórnina en vinna að hagsmunum stúdenta. Það er hægt að færa rök fyrir því að þegar helsti styrktaraðili Röskvu þarf á því að halda að ríkisstjórnin sé gagnrýnd þá hlýði Röskva kallinu. Dæmi um slíkt er að Röskva hefur beinlínis mælt gegn hækkunum námslána í stjórn LÍN á þeim forsendum að þær gangi of skammt. Þessi sérstaka “frekar þann versta heldur en næstbesta” samningatækni stríðir þannig augljóslega gegn hagsmunum stúdenta. Engin hækkun námslána kemur stjórnarandstöðunni hins vegar ágætlega þegar hún vill benda á “getuleysi ríkisstjórnarinnar í menntamálum.”
Tengsl Röskvu og Samfylkingarinnar taka á sig ýmsar myndir og komu þau bersýnilega í ljós þegar Stúdentaráð og Samfylkingin sendu frá sér ályktanir um yfirvofandi verkfall háskólakennara. Ályktun SHÍ var samkvæmt öruggum heimildum Deiglunnar lögð fram af Þorvarði Tjörva Ólafssyni, nýkjörnum formanni Stúdentaráðs en höfundur ályktunarinnar er ókunnur. Höfundur ályktunar þingflokks Samfylkingarinnar er einnig ókunnur en ef ályktanirnar eru bornar saman sést greinilega að sami maður er þar á ferð. Eins og sjá má af samanburðinum hér að neðan þá eru heilu greinarnar í ályktununum samhljóða.
Í ályktun Stúdentaráðs varðandi verkfallið segir m.a.:
Í húfi eru hagsmunir á sjöunda þúsund stúdenta sem búa við mikla óvissu um framkvæmd prófa og afgreiðslu námslána. Verkfall mun lama alla starfsemi skólans um ófyrirséðan tíma og stjórnvöld verða að leggja sitt af mörkum svo að slíkt gerist ekki í stærstu menntastofnun þjóðarinnar.
Í ályktun þingflokks Samfylkingarinnar segir um sama efni:
Í húfi eru hagsmunir á sjöunda þúsund stúdenta sem búa við mikla óvissu um framkvæmd prófa og afgreiðslu námslána. Verkfall mun lama alla starfsemi skólans og brýnt er að stjórnvöld leiti allra leiða til að slíkt gerist ekki í æðstu menntastofnun þjóðarinnar.
En þetta er ekki allt því í ályktun SHÍ segir:
Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er skýr vísbending um sterkan vilja félagsmanna um að ekki sé hvikað frá kröfum þeirra. Það er því ljóst að báðir deiluaðilar þurfa að sýna mikinn samningsvilja til þess að sættir náist og ekki þurfi að koma til verkfalls.
Í ályktun Samfylkingarinnar segir:
Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er skýr vísbending um sterkan vilja félagsmanna um að ekki verði hvikað frá kröfum þeirra. Báðir deiluaðilar þurfa að sýna mikinn samningsvilja til þess að sættir náist og ekki þurfi að koma til verkfalls.
Þetta er afar upplýsandi fyrir stúdenta sem nú geta metið sjálfir, eftir þessi dæmi, hvort Röskva láti þessi miklu tengsl við vinstri flokkana stjórna framferði sínu í Stúdentaráði.
Ef Röskva telur staðhæfingu um bein fjárframlög frá vinstri flokkunum vera ranga þá er hér með skorað á fylkinguna að verja sig og mælir Deiglan með málshöfðun vegna meiðyrða.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020