Í Fréttablaðinu í gær tjáði Sandra B. Jónsdóttir sig um erfðabreytt matvæli. Þar gagnrýndi hún yfirvöld umhverfismála og fyrirtækið ORF líftækni hf fyrir það að ætla án samráðs við kóng eða prest að sleppa erfðabreyttum plöntum út í íslenska náttúru.
Telur hún að nái áform þessi fram að ganga, muni ímynd Íslands verða stofnað í hættu og vegið sé þar með að kynningu landsins og afurða þess sem hreinna og náttúrulegra. Þannig sé ekki spurning hvort heldur hvenær erfðabreytt efni komist í fæðukeðju neytenda.
Þetta eru um margt gildir punktar til að kasta fram í umræðuna. Gæði og gagnsemi erfðabreyttra matvæla hafa verið gríðarlega umdeild, og bæði satt og rétt að í meðförum þekkingarinnar eru greinilega ýmsar gloppur að finna. Þannig hafa gerst, og geta alltaf gerst slys, sem í tilfellum erfðabreyttra matvæla geta leitt af sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
Hér er þá annars vegar átt við erfðablöndun erfðabreyttra stofna við villta stofna, og hinsvegar mengunarslys líkt því sem að Sandra vísar til í grein sinni. Þá gerðist það í Bandaríkjunum að venjulegar soyabaunir voru ræktaðar upp á akri sem ekki hafði verið nægilega hreinsaður af þeim erfðabreytta maís sem þar var ræktaður á undan, til framleiðslu á lyfvirkum prótínum. Því varð blöndun, soyauppskeran mengaðist, og var framleiðslan innkölluð vegna ofnæmisviðbragða fjölda neytenda.
En þrátt fyrir bitra reynslu er ef til vill svolítið hæpið að ætla yfirvöldum hérlendis og forsvarsmönnum ORF líftækni hf það að ætla í fullkomnu ábyrgðarleysi og án tillits til reynslu annarra þjóða að slengja niður erfðabreyttum plöntum um víðan völl og stefna þannig náttúru Íslands og heilsufari þjóðarinnar í hættu, allt fyrir mögulega mjög arðbæran iðnað.
Rannsóknarstarf á vegum ORF líftækni hf hefur farið fram í mörg ár og framleiðsla lyfvirkra próteina þróuð bæði útfrá sérþekkingu á þessu sviði sem og reynslu annars staðar frá, og síðast en ekki síst með tilliti til sérstöðu íslenskrar náttúru. Það er heldur ekki af ástæðulausu að byggplantan er valin til þessa.
Eins og pistlahöfundur hefur áður fjallað um þá hefur ORF líftækni hf notast við byggplöntuna í tilraunum sínum og hyggst í framhaldi nýta hana til framleiðslu lyfvirkra próteina sem nota má til lyfjagerðar. Byggplantan er mörgum einstökum kostum búin, og hefur sérstaklega verið valin, þó svo að hún sé miklu erfiðari viðfangs en aðrar plöntur í þessu tilliti, til að tryggja erfðafræðilega einangrun en það er auðvitað forsenda þess að leyfi fáist fyrir framleiðslunni.
Hinsvegar er það alveg rétt að tiltölulega lítið hefur farið fyrir umræðunni um erfðabreyttu plönturnar og möguleika þeirra sem og mögulega ókosti í íslenskum fjölmiðlum og full ástæða til að kynna málið betur, og hefja um það fræðilega umræðu. A.m.k vonast pistlahöfundur, sem þó hefur þegar ‚keypt’ hugmyndina um erfðabreytt bygg, til þess og hvetur áhugasama til að kynna sér málin.
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007