Nú styttist óðum í aftöku Timothys McVeighs og allt stefnir í metaðsókn. Upp er komið nokkuð sérstakt mál í tengslum við aftökuna, en það varðar tjáningafrelsi og höft þess samkvæmt bandarísku stjórnarskránni. Þannig er mál með vexti að fyrirtæki nokkurt, Entertainment Network Inc., hefur óskað eftir því að sýna aftökuna beint á Netinu. Fjölmiðlum er heimilt að vera við aftökur þar vestra en í gær úrskurðaði alríkisdómari að bann við hljóð- og myndútsendingum af aftökunni bryti ekki í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi.
Forsvarsmenn ENI hyggjast áfrýja úrskurðinum og telja sig í reynd með unnið mál í höndunum. Lögfræðingur þeirra telur að ekki sé hægt að setja tjáningarfrelsinu slíkar skorður með reglugerð fangelsisyfirvalda einni saman.
Eins og fyrr segir stefnir í metaðsókn að aftökunni en áhorfendur að þessum voðaverkum alríkisstjórnarinnar eru að jafnaði eitthvað á annan tuginn. McVeigh var dæmdur fyrir morð á 168 manneskjum með því að hafa sprengt stjórnsýsluhúsið í Oklahoma í loft upp árið 1995. Þegar hafa vel á annað hundrað manns tryggt sér aðgang að aftökunni og færri komast að en vilja. Þess vegna er fyrirhugað að sjónvarpa aftökunni um lokað kapalkerfi til aðstandenda fórnarlamba McVeighs.
Sjálfur er McVeigh hlynntur því, að aftaka hans fái sem mest áhorf. Það gæti ráðist í dómsal í Bandaríkjunum á næstu vikum hvort honum verði að þeirri ósk sinni og þá hvort gjörvöll heimsbyggðin muni fylgjast með því á Netinu þegar sprautað verður í hann banvænum skammti af eitri þann 16. maí næstkomandi.
Reyndar mætti spyrja: Þar sem á annað borð er verið að drepa mann, sem hefur drepið aðra menn, til að sýna fólki að það að drepa sé rangt – af hverju þá ekki láta aftökuna fara fram opinberlega að fornum sið?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021