Sýslumenn gegna veigamiklu hlutverki í íslenska stjórnkerfinu, sérstaklega utan Reykjavíkur þar sem þeir fara með lögreglu- og ákæruvald auk tollamála.
Önnur mál þar sem sýslumenn koma við sögu eru m.a. sifja- og erfðaréttarmál, þinglýsingar, aðför, kyrrsetning, lögbann, nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti.
Ekki verður efast um mikilvægi sýslumanna í íslensku stjórnkerfi. Þeir gegna veigamiklu hlutverki sem fulltrúar ríkisvaldsins í héraði, sjálfsagt er sá maður ekki til sem aldrei hefur haft samskipti við sýslumannsembætti á sinni lífstíð.
Fyrir fyrsta júlí 1992 var hlutverk sýslumanna enn stærra en það er í dag. Þá fóru þeir með dómsvald í héraði, Reykjavík var eina undantekningin í þeim málum. Ef við horfum enn lengra til baka hafa sýslumenn sjálfsagt gegnt miklu stærra hlutverki. Sýslumenn voru etv. eini fulltrúi ríkisvaldsins sem borgararnir höfðu samskipti við á lífsleiðinni og voru nokkurs konar leiðtogar í sínum héröðum sem þeir eru etv. í smærri byggðarlögum í dag. Saga sýslumannsembætta er löng og samofin sögu þjóðarinnar, þrátt fyrir mikilvægi þeirra og sögulegri hefð embættanna er tími kominn til breytinga.
Í dag eru samgöngur aðrar og betri en fyrir nokkrum áratugum síðan, rafræn stjórnsýsla hefur rutt sér til rúms og fólk flýr af landsbyggðinni á mölina. Því spyr undirritaður: „Hvers vegna eru sýslumannsembættin svona mörg?“ Er ekki hægt að fækka þeim? Ef undirritaður man rétt þá eru níu sýslumannsembætti í Noregi en eins og menn vita þá er Noregur stærra og fjölmennara ríki.
Undirritaður var í starfsþjálfun hjá Sýslumanninum á Akureyri síðasta sumar. Það embætti hefur um þrjátíu starfsmenn og hefur sýslumaðurinn fjóra fulltrúa sem eru sérhæfðir, þ.e. þeir sjá um vissa málaflokka þannig að viss sérfræðiþekking skapast. Sýslumaðurinn á Akureyri sér einnig um Dalvík sem hefur í kringum 1300-1400 íbúa. Á Dalvík er útibú frá sýslumanninum sem tekur við skjölum og sér um önnur léttari mál, það útibú verður þó sennilega einn daginn lagt niður. Frá Sýslumanninum á Akureyri er sendur einn fulltrúi í viku, eftir hádegi á miðvikudögum, til að sjá um málefni Dalvíkinga, nægir það þeim.
Í næsta „stóra” byggðarlagi, Ólafsfirði, er sýslumaður!!! Íbúar Ólafsfjarðar eru í kringum 900, landfræðilegt umdæmi embættisins er hlægilegt og það eru ekki nema u.þ.b. 20 km. til Dalvíkur frá Ólafsfirði. Hvaða rök búa að baki þessari skipan? Undirrituðum dettur engin góð rök í hug fyrir því hvers vegna Sýslumaðurinn á Akureyri tekur ekki yfir Ólafsfjörð eins og hugmyndir voru uppi um. Fyrir nokkrum áratugum var hægt að réttlæta tilvist Sýslumannsins á Ólafsfirði með tilvísun til landfræðilegrar einangrun staðarins. Sjóleiðin var eina leiðin sem fær var. Samgöngumálin löguðust þó nokkuð mikið þegar Ólafsfjarðarmúlinn kom, hvað þá þegar Ólafsfjarðargöngin voru opnuð. Í dag eru engin landfræðileg rök að baki tilvist sýslumannsembættisins á Ólafsfirði. Einu hvatarnir sem hljóta að liggja að baki þessari skipun mála eru einhvers konar annarlegar atkvæðasmölunarkenndir.
Sýslumaðurinn á Ólafsfirði er gott dæmi um galla kjördæmisfyrirkomulagsins við Alþingiskosningar og dæmi um peningasóun í opinberri stjórnsýslu. Einnig má spyrja sig hvers vegna er sýslumaður á Bolungarvík? Er ekki Bolungarvík örfáa kílómetra frá Ísafirði? Svo mætti lengi telja.
Ekki má gleyma sérfræðiþekkingunni í þessu samhengi. Getur einhver sérfræðiþekking skapast hjá svona litlum embættum? Það hlýtur að liggja í augum uppi að borgarinn fær að meginstefnu til betri þjónustu hjá stærri og öflugum sýslumannsembættum.
Að þessu sögðu ætlar undirritaður að skora á Björn Bjarnason að fækka sýslumönnum um a.m.k helming.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009