Á vefsvæði Alþingis, www.althingi.is, er að finna lista yfir þau frumvörp sem eru til umræðu hverju sinni. Einnig er þar að finna lista yfir fyrirspurnir þingmanna, ályktanir og athugasemdir. Það getur verið fróðlegt að kíkja yfir þetta einstaka sinnum til að komast að því hvað þingmennirnir okkar eru að bardúsa við hverju sinni.
Eins og gefur að skilja eru frumvörpin margs konar og úr öllum krókum og kimum starfsemi ríkisins. Svo eitthvað sé tilgreint eru til umræðu núna á Alþingi frumvörp sem fjalla um: friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum, ferðasjóð íþróttafélaga (byggðamál að sjálsögðu), innheimtulög (starfsemi handrukkara verður ólögleg með öllu eftir þetta, ef hún var það ekki fyrir), aðskilnað ríkis og kirkju (fögnum því), heimild til að taka hægri beygju á rauðu ljósi og frumvarp um breytingar á almennum hegningarlögum sem banna kaup á kynlífsþjónustu af nokkru tagi (skilgreining?).
Auk þessa liggur fyrir frumvarp um breytingu á áfengislögum sem heimilar bruggun áfengra drykkja í heimahúsum án sérstaks leyfis. Breytingin er svo hljóðandi:
“Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. og 2. mgr. 6. gr. skal heimilt að framleiða án leyfis vín úr innlendum berjum, ávöxtum eða jurtum til eigin neyslu sem í eru að rúmmáli minna en 15% af hreinum vínanda.”
Alltaf eru þingmenn jafnmiklir þjóðernissinnar. Hér var að sjálfsögðu nauðsynlegt að einskorða þessa lagabreytingu við innlend ber og ávexti. Ekki má sem sagt brugga rauðvín úr innfluttum vínberjum en hvannarótarvín og blóðbergsbombur undir 15% eru löglegar!
Heilbrigðisráðherra leggur til að gjald í framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað úr kr. 5.440 í kr. 5.576. Aldrei heyrir maður minnst á þennan sjóð nema þegar hann dúkkar upp á skattskýrslunni árlega og alltaf blótar maður jafnmikið yfir þessu gjaldi. Þetta er nefskattur sem leggst á nánast alla landsmenn, allavega þá sem hafa hærri árstekjur en nokkur hundruð þúsund krónur. Það væri nú nærri lagi að leggja af þennan nefskatt í stað þess að hækka hann. Það er nefnilega allt of auðvelt fyrir stjórnmálamenn að hækka svona sérskatta þegar þeim hefur verið komið á án þess að mikið fari fyrir því. Er því ekki ærin ástæða til að einfalda skattkerfið og legga þessa blessuðu sérskatta af?
Fyrirspurnir þingmanna virðast vera óteljandi. Ekki furða að það þurfi svona marga starfsmenn í hvert ráðuneyti ef þeir gera varla annað en að svara fyrirspurnum þingmanna. Geta þingmenn ekki bara flett sjálfir upp e-m þessara upplýsinga sem þeir þarfnast? Spyr sá sem ekkert veit. Ég skora á e-n þingmann að leggja fram fyrirspurn á Alþingi varðandi það hversu miklum tíma starfsmenn ráðuneyta eyða í að svara fyrirspurnum þingmanna. Af áhugaverðum fyrirspurnum má svo nefna að Ástu R. Jóhannesdóttur lengir eftir hönnunarmiðstöð og spyr því iðnaðarráðherra eftirfarandi spurningar:
“Hvað líður stofnun hönnunarmiðstöðvar hér á landi? Hvenær er ráðgert að koma henni á laggirnar og undir hvaða formerkjum?”
Gott mál þessi hönnunarmiðstöð, drífum endilega í að koma henni á fót, sama hvað hún á nú að gera. Hvort ætli hún eigi að hanna miðstöðvar eða vera miðstöð hönnunar? Hvort ætli formerkin verði plús eða mínus? Skiptir það nokkru máli? Er ekki líklegt á hvern veginn sem verður að þetta mun kosta skattborgarana tugi ef ekki hundruðir milljóna á ári? Hærri útgjöld, hærri skattar. Það er jú það sem allir vilja – ekki satt?
Af ofangreindu má vera ljóst að þau eru margvísleg málin sem þingmennirnir okkar þurfa að fjalla um. Þau virðast einnig mismikilvæg og misáhugaverð, án þess að neinn dómur sé felldur um það hér. Þetta ætti þó að gefa örlitla mynd af starfi þingmanna og daglegu viðfangsefni þeirra. Áhugavert? Menn verða að svara því hverjir fyrir sig, það er á hreinu.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008