Nú hefur verkfall sjómanna staðið í tæpan mánuð og engin lausn virðist í sjónmáli. Reyndar virðast deiluaðilar fjarlægast hver annan meira með hverjum deginum. Og ekki er laust við að persónuleg illindi séu farin að setja svip sinn á deiluna. Þessi mikla harka er raunar einkennileg þar sem einföld lausn á stærstum hluta deilunnar blasir við. Deilan snýst að mestu um tvö atriði.
Annars vegar vilja útgerðarmenn að þeir njóti þeirrar hagræðingar sem verður þegar tækniframfarir leiða til fækkunar í áhöfn. Þetta verður að teljast mjög eðlileg krafa. Hins vegar krefjast sjómenn þess að fiskverðið sem hlutaskiptakerfið byggir á sé ekki tilbúið verð milli útgerðar og landvinnslu, sem oft er í eigu sömu aðila, heldur markaðsverð á fiski á hverjum tíma. Þetta verður einnig að teljast vera nokkuð eðlileg krafa. Þess vegna virðist mér að lausn deilunnar hljóti að felast í því að sjómenn gefi algerlega eftir varðandi ágóðann af fækkun í áhöfn, þ.e. að útgerðin njóti langstærsta hluta þess ágóða, og að útgerðarmenn fallist án undanbragða á að miða við markaðsverð á fiski í öllum útreikningum á hlutum sjómanna.
En nóg um verkfall sjómanna. Það sem ég ætlaði mér að tala um eru verkföll almennt. Verkföll eru einstaklega óhagkvæm leið til þess að leysa vinnudeilur. Óhagræðið sem hlýst af verkföllum er raunar svo gríðarlegt að það er með ólíkindum að ekki hafi komið fram aðrar betri aðferðir við lausn kjaradeilna sem leyst gætu verkföll af hólmi. Ég hef á undanförnum árum hugsað þó nokkuð um þetta atriði. En um daginn datt mér í hug hugsanleg leið sem mig langar nú að deila með lesendum Deiglunnar.
Lykillinn að slíkri aðferð er að líkja eftir því tjóni sem deiluaðilar verða fyrir á meðan á verkfalli stendur án þess að láta framleiðslu stöðvast. Það er vitaskuld í framleiðslustöðvuninni sem nettó óhagræðið fyrir þjóðfélagið felst. Ef unnt væri að skapa sama þrýsting á deiluaðila án þess að grípa til framleiðslustöðvunnar væru verkföll óþörf og unnt væri að leysa kjaradeilur á hagkvæman hátt.
Aðferðin sem mér datt í hug felst í því að í stað þess að geta gripið til verkfalls gætu deiluaðilar gripið til þrásekta. Þ.e. þeir gætu tilkynnt að ef ekki hefur samist fyrir ákveðinn dag taki þrásektir að falla á deiluaðila. Þrásektir hvers fyrirtækis mætti t.d. miða við tekjur fyrirtækisins. Dagsþrásektir (fyrir hvern virkan dag) gætu þá t.d. verið einn 250asti af tekjum fyrirtækisins (þannig að þrásektir á einu ári væru sem næstar árstekjum fyrirtækisins). Þrásektirnar ættu vitaskuld að falla á báða aðila. Þannig mætti til dæmis skipta þrásektunum til helminga, þ.e. láta helming þeirra falla á launþeganna og helming á fyrirtækið. Sektirnar myndu vitaskuld valda deiluaðilum tjóni, eins og verkföll gera, og því þrýsta á þá að ná samkomulagi. Aðal kosturinn við þrásektir er hins vegar að á meðan á þeim stendur gæti framleiðsla haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist og þannig er komið í veg fyrir að vinnudeilan valdi nettó óhagræði fyrir þjóðfélagið og einnig væri komið í veg fyrir að vinnudeilan valdi utanaðkomandi hópum, eins og til dæmis nemendum í kennaraverkfalli, tjóni.
Hvert ættu þrásektirnar að renna? Þær mættu til dæmis renna til ríkisins og þannig leiða til lækkunar á sköttum. Þannig mætti gera það að verkum að kjaradeilur leiddu til aukinnar hagkvæmni í stað þess að vera þung byrði á þjóðinni.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009