Hið nýja dagblað, Fréttablaðið, hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Skoðanir fólks á blaðinu og spár um framtíð þess hafa verið margvíslegar. Það var þó fyrst í dag sem Fréttablaðið opinberaðist almenningi. Þetta er því nokkuð sögulegur dagur í íslenskri fjölmiðlasögu þar sem blaðið virðist í senn vera málefnalegt og metnaðarfullt í efnisvali og laust við þann biturleik og baknag sem einkennt hefur þau blöð sem lagt hafa upp laupana síðustu árin.
Dreifing blaðsins er ekki síður athygliverð og blaðið var skemmtileg lesning með morgunkaffinu, sem rann ljúflega niður. Ég verð þó að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á uppsetningu blaðsins þar sem innlendar og erlendar fréttir af öllu tagi virtust dreifðar um blaðið. Líklega er það þó vegna þess hve ég er vanur vernduðu umhverfi Morgunblaðsins.
Segja má að það sé vor á fjölmiðlamarkaðnum á íslandi. Vorboðinn var Skjár einn, sem nú er orðinn rúmlega eins árs og sól hans skín hátt. Degi skolaði til sjávar í vorleysingunum og nú hefur Fréttablaðið bæst í fjölmiðlaflóruna. Við á Deiglunni viljum bjóða blaðið velkomið og vonum að það sé komið til að vera.
Ekki er úr vegi að vitna í þetta nýútgefna blað á þessum merka degi. Sú frétt sem auðvitað vakti mesta athygli mína var af góðkunningja lesenda Deiglunnar, sjálfum Ólafi Erni Haraldssyni. Honum þykir nóg um að borgarbúar telji að ekki sé lengur hægt að ganga um borgina að kvöldlagi án þess að eiga á hættu að verða fyrir árásum. Hann vill því að skipaður verði sérstakur starfshópur sem finni leiðir til að koma í veg fyrir ofbeldi. Ætli Ólafur hafi hugleitt útgöngubann í þessu sambandi eða jafnvel að banna bara ofbeldi?
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021