Í kringum 1990 stóð finnska ríkistjórnin frammi fyrir mikilli efnahagskreppu, meðal annars vegna falls Sovétríkjanna, sem höfðu verið meðal helstu viðskiptalanda Finnlands. Atvinnuleysi var mikið og fór hæst í 16,5% svo ljóst var að leita þyrfti nýrra leiða til að örva atvinnulífið.
Viðbrögð finnsku ríkistjórnarinnar voru þau að setja í gang metnaðarfulla áætlun um að breyta finnsku samfélagi í þekkingarsamfélag. Markmið áætlunarinnar voru meðal annars þau að hækka almennt menntunarstig í þjóðfélaginu og að tvöfalda fjölda nemenda sem stunda nám á háskólastigi fyrir aldamótin. Lykilatriði í þessari áætlun var að setja á fót nýtt kerfi menntunar á háskólastigi. Stofnaðir voru skólar til hliðar við háskólana sem nefndir voru Ammattikorkeakoulut. Orðið er þýðing á enska orðinu polytechnic sem mætti ef til vill þýða sem fjöltækniskóla á íslensku. Þessum skólum var ætlað að veita hagnýta menntun á háskólastigi sem miðuð yrði að þörfum atvinnulífsins. Lagt var upp með að skólarnir byðu upp á þriggja og hálfs árs nám sem veitti próf á B.S/B.A. stigi.
Fjöltækniskólarnir voru stofnaðir með því að sameina ýmsa verkmenntunar og tækniskóla auk lista- og starfsmenntunarskóla. Auk þess var bætt við nýjum hagnýtum námsleiðum sem ekki höfðu verið í boði áður. Samþykktar voru metnaðarfullar áætlanir um að koma gæðum menntunar þessara skóla á háskólastig og meðal annars voru settir hærri staðlar um menntun kennara. Kennarar sem fyrir voru fengu ákveðin ár til aðlögunar og tækifæri til menntunar svo þeir gætu uppfyllt nýju staðlana.
Samkvæmt skýrslu OECD um fjöltækniskólana í Finnlandi[1] hefur kerfið verið ótrúlega árangursríkt. Aðeins 10 árum eftir stofnun þeirra þjóna þeir þremur af hverjum fimm nemendum á háskólastigi í Finnlandi. Markmið um fjölgun nemenda náðust og rúmlega það en milli 1992 og 2000 þrefaldaðist fjöldi nemenda á háskólastigi. Þar vegur þyngst fjölgun í fjöltækniskólunum enda var fjölgunin í hefðbundnu háskólunum minni en 50%. Á sama tíma var fjölgun nemenda á háskólastigi á Íslandi um 45%.
Einn helsti árangur nýja kerfisins er að því hefur tekist að laða til sín hópa fólks sem ekki finna sig í hefðbundna háskólakerfinu og þannig hafa náðst markmið um að hækka almennt menntunarstig. Reynslan frá Finnlandi og öðrum þjóðum sýnir mikilvægi þess að hafa kerfi skóla á háskólastigi utan hefðbundins háskólakerfis. Þannig er hægt að bjóða upp á menntun á háskólastigi fyrir mikinn fjölda fólks auk þess að skapa þann fjölbreytileika sem nauðsynlegur er í menntakerfið svo sem flestir geti fundið nám við sitt hæfi og þannig nýtt krafta sína til fullnustu.
Sá skortur sem er á fjölbreyttu og vel skipulögðu starfs- og verknámi hérlendis veldur því að margt hæfileikarríkt fólk hverfur frá frekara námi og íslenskt atvinnulíf missir af vel þjálfuðu og hæfu starfsfólki. Aukin áhersla á slíkt nám myndi án efa skila sér í öflugra atvinnulífi sem yrði enn hæfara í alþjóðlegri samkeppni.
Heimildir:
[1]: OECD, 2001, Polytechnic education in Finland.
[2]: Menntamálaráðuneytið, 2000. Tölfræðihandbók um háskólastigið.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007