Í gær tók við nýr formaður fjárlaganefndar Alþingis. Eftir miklar vangaveltur var það Ólafur Örn Haraldsson sem varð fyrir valinu. Þetta er ákveðin uppreisn æru fyrir Ólaf sem á síðustu árum hefur þolað hvert bakslagið í pólitískum ferli sínum á fætur öðru. Kristinn Gunnarsson, sem stal af Ólafi embætti þingflokksformanns um árið, tilkynnti fréttamönnum að þessi ákvörðun grundvallaðist á því að styrkja þyrfti stöðu Reykvíkinga í þingflokknum. Ekki minntist hann orði á að mannkostir Ólafs Arnar hefðu haft nokkuð með ákvörðunina að gera.
Formannsembætti í fjárlaganefnd hefur stundum verið talið ígildi ráðherradóms því nokkur völd fylgja þessari stöðu. Það er því mikilvægt að Ólafur Örn sýni hvað í honum býr við þetta tækifæri og fari vel með þetta embætti. Víst er að hart er sótt í þá sjóði sem fjárlaganefnd úthlutar og ríður á að sá sem fyrir bænaflóðinu verður sé ekki of bóngóður eða leiðitamur heldur verji almannafé með kjafti og klóm.
Hér á Deiglunni er vísað í pistil eftir amerískan pistlahöfund sem leggur Bush á mælistiku þýska hershöfðingjans von Moltke. Eins og dyggir lesendur hafa séð þá skipti von Moltke fólki í fjóra hópa eftir dugnaði annars vegar og gáfnafari hins vegar. Taldi von Moltke mesta hættu stafa af heimsku dugnaðarforkunum því þeir leiti ótrauðir að nýjum verkefnum eftir að hafa klúðrað þremur til fjórum fyrir hádegi. Gagnlega taldi von Moltke þá menn sem hefðu til að bera bæði atorku og gáfur en latir gáfumenn voru honum best að skapi þegar velja þurfti menn til forystu. Sé Ólafur Örn lagður á þessa mælistiku má telja víst að hann flokkist með dugnaðarforkunum – það eru engin letidýr sem heimsækja Suðurpólinn. Hvort hann teljist gáfumaður skv. skilgreiningu von Moltke treysti ég mér ekki til að segja til um en í ljósi ofangreinds þá vona ég að svo sé. Hitt er víst að ég tel víst að betra sé að letingi gegni starfinu sem Ólafur var að taka við. Helst þyrftir formaður fjárlaganefndar að vera svo húðlatur að hann nennti ekki einu sinni að halda fundi með þrýstihópum sem allir krefjast meiri peninga af skattgreiðendum. Því miður hefur Ólafur Örn ekki enn sýnt nægilega leti og ómennsku til þess að sannfæra mig um að hann sé vel til forystu fallinn. En lengi má manninn reyna.
Það er vonandi að Ólafur Örn láti nú af dugnaði sínum eftir að hafa komist í svo gott embætti og gerist latur við að útdeila skattpeningum og hætti að fá hugmyndir um fjárfrek þjóðþrifamál.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021