Hryðjuverkastríðið

Í síðustu viku kom fram í dagsljósið minnisblað Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, til helstu samstarfsmanna sinna þar sem hann lét í ljós efasemdir um að stríðið gegn hryðjuverkum hefði skilað nægilegum árangri. Vill hann nýja stofnun sem hefur víðtækar heimildir til þess að athafna sig.

Í síðustu viku kom fram í dagsljósið minnisblað Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, til helstu samstarfsmanna sinna þar sem hann lét í ljós efasemdir um að stríðið gegn hryðjuverkum hefði skilað nægilegum árangri. Innihald þessa minnisblaðs var birt í USA Today og eru þessar vangaveltur Rumsfeld í nokkru ósamræmi við yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um að allt sé á réttri leið í þessum efnum.

Stríð gegn hryðjuverkamönnum er eins óhefðbundið og stríð geta orðið. Vígamenn leynast á meðal óbreyttra borgara, jafnvel árum saman og láta svo sverfa til stáls við hentugt tækifæri. Skotmarkið er þá að jafnaði þessir sömu óbreyttu borgarar og leynst hefur verið innan og njóta ekki hernaðarlegrar verndar. Við þetta er erfitt að eiga. Hryðjuverkaógnin rís venjulega upp þar sem tveir eða fleiri aðilar hafa deilt og annar hefur verið kveðinn í kútinn með hernaðar- og tæknilegum yfirburðum, eða jafnvel borinn ofurliði á pólitískum forsendum. Hinir sigruðu eiga þá oft ekkert eftir nema sært stoltið sem knýr þá áfram til þeirra óhæfuverka sem hryðjuverk eru.

Hryðjuverk er þó alls ekki ný af nálinni, heldur hafa þau fylgt mannkyninu í einhverri mynd frá örólfi alda. Hingað til hafa þau verið nokkuð staðbundin og beinst gegn vel skilgreindum andstæðing, líkt og barátta IRA gegn stjórnvöldum í London, ETA gegn stjórnvöldum í Madrid og ýmissa hópa Palenstínumanna gegn Ísrael, svo dæmi séu tekin.

En nú kveður við nýr tónn. Al-Qaeda samtökin hafa nú skipulagt sig á heimsvísu (þó deilt sé um hversu mikil yfirstjórnin sjálf sé) og óvinurinn virðist vera flestar vestrænar þjóðir. Einnig virðist sem að talsvert fjármagn sé á bak við þessi samtök og margar ríkisstjórnir Arabaríkja liggja undir grun um að styðja þau með einum eða öðrum hætti. Það má því segja að hryðjuverk hafi færst á nýtt stig.

Í áður nefndu minnisblaði Donald Rumsfeld kemur fram að hann efast um að varnarmálaráðuneytið sé rétti aðilinn til þess að stýra baráttunni gegn hryðjuverkum og hann gefur Leyniþjónustunni CIA aðeins meðaleinkunn fyrir tilraunir hennar til þess að hafa upp á hryðjuverkaleiðtogum. Hann spyr hvort að CIA hafi þau forráð sem hún þarf til þess að sinna þessum verkefnum. Telur hann að þörf sé á nýrri stofnun til þess að heyja stríð við hryðjuverkaöflin, enda hafa þau fært sig á nýtt stig.

Það er ljóst að ef til slíkrar stofnunar kemur, sem ekki er ólíklegt eftir þetta útspil Rumsfeld, að þá verður hún valdamikil líkt og Heimavarnarráðuneytið (Department of Homeland Security) sem stofnað var að frumkvæði Bush forseta á síðasta ári og greint var frá í pistli hér á Deiglunni. Hefur frjálslynt fólk mjög gagnrýnt þá stofnun og ekki er ólíklegt að því hrylli við hugmyndum um stofnun sem hefur nægjanlegt “forræði” til þess að takast á við verkefni sitt, þ.e. meira forræði en CIA hefur.

Engu að síður þarf stríðið við hryðjuverk að halda áfram, enda eigum við ekki að líða þann heigulshátt að saklaust fólk sé vegið úr launsátri. En spurninginn er hinsvegar sú hversu langt við eigum að ganga í því að skerða okkar eigið frelsi og borgaraleg réttindi. Einn helsti sigur hryðjuverkaaflanna er sá að neyða fólk í vestrænum samfélögum til þess að fórna lífsgildum sínum og frjálslyndi. Undan slíku megum við ekki láta.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.