“Hver hefði viljað bera ábyrgð á því að hafa hleypt hundruðum manna inn í félagið daginn fyrir aðalfund.” Þessi stórmerkilegu ummæli Magnúsar Þórs Gylfasonar, fyrrverandi formanns Heimdallar var að finna í Morgunblaðinu þann 25.október 2003. Í grein sinni “Farið að lögum Heimdallar” fjallar Magnús um að fyrrverandi stjórn hafi farið að lögum félagsins þegar að hún ákvað að fresta afgreiðslu 1152 inntökubeiðna í félagið fyrir aðalfund og vísar í 5.gr laga þess sem segir m.a.:
”Hver sá sem ekki starfar í deild, getur gengið í félagið. Skal hann senda skriflega umsókn til stjórnar félagsins og sker hún um hvort umsóknin skuli tekin til greina.
Við úrskurð um aðild deildar eða einstaklinga þarf samþykki 8 stjórnarmanna.”
Þar sem stjórnarmenn eru 12 þá þarf samþykki aukins meirihluta stjórnarinnar til þess að samþykkja inntökubeiðni. Af röksemdarfærslu fyrrverandi formanns er því ljóst að engu var frestað varðandi inntökubeiðnir þeirra einstaklinga sem sóttu um aðild að félaginu heldur var þeim einfaldlega hafnað af stjórninni. Stjórnin hefur enga heimild í lögum til þess að fresta innskráningum í félagið en hefur einmitt heimild til þess að hafna innskráningum og þar sem þeim var í raun hafnað en ekki frestað þá er ljóst að fyrrverandi formaður hefur rétt fyrir sér,- stjórnin fór eftir lögum félagsins. Stjórn Heimdallar 2002-2003 hafnaði því að skrá 1152 einstaklinga inn í félagið, sannarlega sögulegur viðburður það.
“Ljóst er að ungt folk var með skipulegum hætti hvatt til að skrá sig í félagið, taka þátt í kosningunni á aðalfundinum”, segir fyrrverandi formaður félagsins jafnframt eins og um stóralvarlegt mál sé að ræða. Til þess að leiðrétta allan vafa þá er eflaust rétt að árétta það að skyldur stjórnarmanna í ungliðahreyfingu felast einna helst í því að laða folk inn í félagið. Hægt er að gera það á margvíslegan hátt, t.d. með því að bjóða sig fram og biðja vini sína og vandamenn um að styðja framboðið og taka þátt í störfum félagsins. Ljóst þykir að fyrrverandi formaður Heimdallar og stjórn hans hafa ekki vitað af þessum skyldum sínum þar sem að aukið álag á stjórnina í kringum aðalfund kom þeim í opna skjöldu og því töldu þau rökréttast að banna öllu nýju fólki að ganga í félagið. Þetta var upphafið að þeim leikþætti sem viðhaldist hefur hjá sitjandi stjórn.
Fyrrverandi formaður heldur áfram að bæta gráu ofan á svart í grein sinni með því að leggja til að menn verði í nánustu framtíð að hafa starfað í ákveðinn tíma í Heimdalli til þess að öðlast kosningarétt. Með þessari tillögu sinni heldur hann áfram að reyna að koma í veg fyrir nýliðun í félaginu – þar sem hún fer venjulega fram í kringum kosningar – og kemur þar með í veg fyrir endurnýjun Sjálfstæðisflokksins.
Svava Björk Hákonardóttir
- Frelsi frjálshyggjumanna III - 25. október 2003
- Frelsi frjálshyggjumanna II - 23. október 2003
- Nekt í tónlistarmyndböndum - 18. október 2003