Á síðustu dögum hefur talsvert borið á gagnrýni á fjárlög ríkisins. Ýmislegt í þeirri gagnrýni er vel til fundið. Það er til dæmis öllum skattgreiðendum hollt að fletta í gegnum niðurskurðartillögur Heimdallar á fjárlagafrumvarpinu. Þótt Heimdellingar gangi heldur langt hér og þar verður þó að viðurkennast að þeir hafa safnað saman ótrúlegum lista af útgjaldaliðum sem hinn venjulegi skattgreiðandi gerir sér líklega ekki grein fyrir að hann er að borga fyrir. Og myndi líklega ekki kjósa að fjármagna ef fjárlögin væru hluti af heimilisbókhaldinu.
Gagnrýni á fjárlögin hefur hins vegar verið misvel ígrunduð á síðustu vikum. Þannig hefur talsvert borið á því að þeir sem mest horn hafa í síðu ríkisútgjalda tali um ævintýralegan vöxt ríkisútgjalda á síðustu árum. Þessir aðilar nefna gjarnan að ríkisútgjöld muni hafa aukist um 100 milljarða árið 2004 frá því sem þau voru árið 1997. Og það á föstu verðlagi!
Hér hafa gagnrýnendur fjármálaráðuneytisins annað hvort tapað áttum eða þá að þeir eru vísvitandi að setja fram staðleysu. Það vill nefnilega svo til að árið 1997 var síðasta árið sem útgjöld ríkisins voru reiknuð á greiðslugrunni. Frá og með árinu 1998 hafa þau verið reiknuð á rekstrargrunni. Samanburður á útgjöldum ríkisins árið 1997 á greiðslugrunni og árið 2004 á rekstrargrunni er því algerlega merkingarlaus. Það er einfaldlega verið að bera saman epli og appelsínur.
Þessi breyting á reikningshaldi ríksins hafði í för með sér talverðar breytingar á því hvað var skilgreint sem ríkisútgjöld. Áður fyrr voru liðir eins og barnabætur, vaxtabætur, afskriftir skattkrafna o.fl. ekki taldir til útgjalda. Mestu munaði þó um það að lífeyrisskuldbyndingar eru nú skilgreinar sem gjöld á því ári þegar til þeirra er stofnað en ekki þegar lífeyrinn er greiddur út.
Þessar breytingar á skilgreiningum leiddu til 60 milljarða króna hækkunar á bókfærðum útgjöldum ríkisins milli 1997 og 1998 sem hafði ekkert með breytingar á starfsemi ríkisins að gera. Þeir sem gagnrýna nú ríkisstjórnina fyrir að hafa aukið útgjöld ríkisins um 100 milljarða frá árinu 1997 eru í raun að skamma ríkisstjórnina fyrir að taka upp nútímalegar bókhaldsaðferðir.
Gagnrýni af þessu tagi er vitaskuld þeim sem hana setja fram til skammar. Núverandi ríkisstjórn á hrós skilið fyrir að hafa breytt framsetningu fjárlaga í skynsamlegra horf árið 1998 þrátt fyrir það að breytingin hafi boðið þeirri hættu heim að hún yrði misskilin á þann hátt sem nú virðist vera að gerast.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009