Þegar að Ómar Ragnarsson söng „Lok, lok og læs og allt í stáli“ um árið þá hafa eflaust fáir reiknað með því að stjórn Heimdallar f.u.s ætti eftir að kyrja sama söng,- jafnvel með slíkri staðfestu að meistari Ómar hefur sjálfur verið kveðinn í kútinn. Sú var þó raunin fyrir nýafstaðinn aðalfund Heimdallar þegar að fyrrverandi stjórn ákvað að loka félaginu – undir þeim formerkjum að eitthvað hlyti nú að vera bogið við þessar 1152 nýskráningar sem þeim bárust.
Rökstuðningur fyrrverandi stjórnar Heimdallar við þessa furðulegu ákvörðun sína byggðist á því að stjórnin hafði sett starfsmann SUS í það verkefni að hringja í brot af þeim einstaklingum sem vildu fá að skrá sig í félagið og grimmilega var víst spurt hvort að viðkomandi væri reiðubúinn til þess að vera ævilangt í því. Flestum var brugðið við þessar mótttökur og fæstir gátu hugsað sér að skuldbinda sig ævilangt með því lokasvari – eins og gefur að skilja,- sérstaklega þar sem að Heimdallur er félag fyrir 15-35 ára gamla einstaklinga. Út frá þessum hringingum uppgötvaði stjórnin þá bláköldu staðreynd að nýskráningarnar væru gallaðar og ákveðið var að fresta því að skrá þessa einstaklinga inn í félagið fram yfir aðalfund.
Sitjandi stjórn Heimdallar f.u.s var sammála fyrrverandi stjórn,- hún sá einnig maðk í mysunni varðandi nýskráningarnar og hefur nú velt þessu máli fyrir sér í þrjár vikur. Ákvörðun stjórnarinnar þarf ekki endilega að koma fólki spánskt fyrir sjónir þar sem meirihluti fyrrverandi stjórnar Heimdallar voru einmitt dyggir stuðningsmenn framboðs hennar en undarleg er hún samt sem áður. Stjórnin ákvað nefnilega að þessir 1152 aðilar þurfi allir sem einn að staðfesta fyrri skráningu sína í félagið – eflaust með því móti að enginn vafi leiki á því í huga stjórnarmanna að þeir vilji í raun og veru gerast Heimdellingar.
Þessi aðferðafræði stjórnarinnar hlýtur að teljast fyrst og fremst vantrú af hálfu hennar gagnvart þeim sem vilja ganga í félagið,- annað hvort er hún gáttuð á því aðdráttarafli sem félagið hefur eða hún telur að það séu einfaldlega ótrúverðugir einstaklingar sem sækja nú um inngöngu. Hvort sem heldur er þá er stjórnin að lýsa yfir vantrausti á þá sem vilja verða fullgildir félagar í Heimdalli með því að biðja þessa aðila um að tvískrá sig inn í félagið,- efast verður um að 1152 einstaklingar hafi allir verið með slíku óráði að þeir hafi skráð sig inn í sömu stjórnmálahreyfinguna á sama tímapunkti ef að raunin var sú að þeir hefðu ekki allir raunverulegan áhuga á að ganga til liðs við hana.
Á vefnum frelsi.is er fjallað um stofnun Heimdallar:
“Sú hugsun, sem lá að baki stofnununni, var einkum sú, eins og kemur fram hér að framan, að reyna með félagi þessu að efla sjálfstæðisstefnuna, sem þá kenndi sig við Íhaldsflokkinn, sérstaklega á þann hátt, að leitast við að glæða áhuga ungra manna fyrir stjórnmálum og sýna þeim fram á ágæti stefnunnar. Var bæði eldri og yngri mönnum Íhaldsflokksins það ljóst, að pólitískur félagsskapur, skipaður ungum mönnum, myndi veita flokknum hið drýgsta brautargengi. Slík samtök myndu verða vaxandi boðberi þroskamöguleika flokksins og örugg trygging fyrir sífelldri endurnýjun hans.”
Skammsýni fyrrverandi og núverandi stjórnar Heimdallar er því ekki aðeins lítillækkandi fyrir þá aðila sem tóku þessar miður vel heppnuðu ákvarðanir varðandi nýskráningarnar í félagið heldur hafa stjórnirnar með þessari ákvarðanatöku sinni hreinlega gengið gegn þeim markmiðum sem félagið var stofnað út frá.
Svava Björk Hákonardóttir
- Frelsi frjálshyggjumanna III - 25. október 2003
- Frelsi frjálshyggjumanna II - 23. október 2003
- Nekt í tónlistarmyndböndum - 18. október 2003