Af ýmsu skemmtilegu sem gerðist í síðustu viku er útspil nýkjörinnar stjórnar Heimdallar áreiðanlega með því besta. Eftir fögur fyrirheit um að allir ættu að vinna saman að uppbyggingu þessa stærsta aðildarfélags Sjálfstæðisflokksins og skapa sátt innan þess fór ný stjórn í hjólför fyrirrennara síns og gaf út þá fordæmalausu yfirlýsingu að biðja ætti alla þá, sem skráðu sig í félagið fyrir meintan aðalfund 1. október síðastliðinn, að staðfesta skráninguna.
Eins og frægt er orðið hafði fyrri stjórn „frestað“ inntöku nýrra meðlima fyrir aðalfundinn á þeim forsendum að grunur væru um að einhverjir hefðu ekki verið vissir um inngöngu sína í Sjálfstæðisflokkinn. Að fólk sem stjórnin eða stuðningsmenn hennar hafi hringt í hafi ekki verið visst um hversu lengi það ætlaði að starfa með Sjálfstæðisflokknum og hvort það væri búið skrifa undir ævilanga aðild.
Ekki hafa fengist upplýsingar um hvernig vísindin voru á bak við þá niðurstöðu stjórnarinnar. Þó er vitað að meint símakönnun sem átti að hafa leitt þetta í ljós var framkvæmd af stuðningsmönnum annars framboðsins, úrtakið valið á hæpnum forsendum og svör túlkuð eftir hentisemi.
Engin fordæmi eru fyrir því að kanna „einlægan vilja“, svo vitnað sé beint í forsvarsmenn Heimdallar, þeirra sem skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn hefur jú stært sig af því að vera öllum opinn og í þeim tilgangi boðið fólki upp á að skrá sig á netinu. Þar er hvergi tekið fram að svo geti farið að einstök aðildarfélög muni athuga hvort viljinn sé einlægur og hvað þá að óskin verði að berast aftur frá eigin netfangi eða í útfylltu staðfestingareyðublað bréfleiðis til félagsins. Því er Heimdallur annað hvort að setja sérstakar reglur fyrir þá rúmlega 1200 einstaklinga sem skráðu sig fyrir fundinn eða að breyta starfsháttum við skráningu í Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig sem á það er litið er stjórnin að breyta forsendum skráningar eftir á.
Ef einlægur og óhagganlegur vilji hefði verið fyrir því að kanna hug þeirra sem óskuðu að ganga í Sjálfstæðisflokkinn, þó að slík framkvæmd sé á gráu svæði og algjörlega fordæmislaus, hefði verið réttast að sjá til þess að allar forsendur lægju ljósar fyrir. Reyna eftir fremsta megni að hefja hana yfir vafa t.d. með því að bjóða fulltrúum framboðanna að fylgjast með því að framkvæmdin væri eðlileg, gefa út hvaða úrtak yrði notað til þess að tryggja næginlega slembni og síðast en ekki síst að fá óháðan aðila til framkvæmdarinnar.
Í nýlegri yfirlýsingu stjórnar Heimdallar kom fram að með þessu væri verið að gera umræddum einstaklingum ,,[…]eins auðvelt fyrir og mögulegt er að staðfesta skráninguna enda [sé] það einlægur vilji stjórnarinnar að bjóða velkomna alla þá sem áhuga hafa á að starfa innan félagsins.“
Öllum ætti að vera augljós mótsögnin í þessari yfirlýsingu. Aðeins þeim sem skráðu sig í flokkinn fyrir aðalfundinn 1. október er ekki treyst til að hafa gert það á réttum forsendum. Með yfirlýsingunni er hreinlega sagt að þeir 1152 aðilar sem sýndu félaginu og starfi þess áhuga hafi ekki verið treystandi til þess að taka þátt í aðalfundi og velja nýja stjórn. Að þeim hafi ekki verið treystandi til að skrá sig á réttum forsendum.
Einnig stenst yfirlýsing um að stjórnin vilji gera umræddum einstaklingum auðvelt fyrir að staðfesta skráningu ekki nánari skoðun. Ef einlægur vilji stjórnarinnar hefði verið að fá þá inn í flokkinn hefði verið réttast að leyfa fólki að staðfesta skráningu á aðalfundi félagsins 1. október. Þannig hefðu allir hlutaðeigandi aðilar verið sáttir og félagið með stjórn sem endurspeglar vilja félagsmanna sinna – varla hefðu þeir sem ekki vilja taka þátt í störfum félagsins mætt á aðalfundinn.
Ef stjórnin er staðföst í að senda eitthvað á vonarmeðlimi, þó að engin fordæmi séu fyrir þess konar staðfestingu, væri mun eðlilegra að biðja fólk um að gera athugasemd óski það ekki eftir því að taka þátt í starfi Heimdallar. Þannig hefði nýtt fólk, sem er félagi eins og Heimdalli mjög mikilvægt, fengið að njóta vafans. Nei, þess í stað er sent bréf og spurt hvort viðtakandi vilji nokkuð vera í Heimdalli og gert ráð fyrir að allir hafi skráð sig á röngum forsendum.
Með þessu er nýkjörin stjórn, ef kjörna skyldi kalla, að bíta hausinn af skömminni þar sem fráfarandi stjórn skildi við. Reyndar má segja núverandi stjórn það til vorkunnar að hún átti fáa góða kosti í stöðunni, ef hún ætlaði á annað borð að sitja áfram í skugga lögleysunnar á síðasta aðalfundi.
Ef núverandi stjórn hefði samþykkt allar nýskráingar umyrðalaust hefði það undirstrikað hinn einlæga ásetning fráfarandi stjórnar til að hafa áhrif á niðurstöðu stjórnarkjörsins. Slík ákvörðun hefði þó verið betri en sú sem var tekin. Stjórnin kaus hins vegar ekki að fara þá einu leið sem henni er fær út úr þessum ógöngum sínum; að samþykkja allar umsóknir með þeim hætti sem reglur og venjur Sjálfstæðisflokksins segja til um og boða síðan umsvifalaust til nýs aðalfundar, svo félagsmenn í Heimdalli, nýir sem gamlir, geti kosið þá stjórn sem lýðræðislegur vilji félagsmanna býður.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021