Þrátt fyrir að flug sé öruggur ferðamáti verður því ekki neitað að manni finnst maður tæpast voða öruggur þegar ljósin slökkna í klefanum rétt fyrir flugtak og veggirnir fara að ískra. Því þrátt fyrir alla tölfræðina þá er eitthvað sem segir okkur að þegar eitthvað kemur upp á í 10 þús. metra hæð munu öll heimsins belti, súrefnisgrímur, ælupokar og upprétt sætisbök vera einskis verð.
En ímyndum okkur nú að vélin okkar hafi sprungið í tætlur yfir skóglendum Tékklands og við svífum nú á ógnarhraða niður niður í átt að jörðinni. Er eitthvað sem við getum gert? Í fyrsta lagi þá er líklegt að við munum missa meðvitund fljótlega enda súrefnismagn lítið í þeirri hæð sem farþegaþotur fljúga í. Hins vegar fáum við hana fljótlega aftur þegar neðar er komið.
Ljóst er að staðan er ekki voða björt. Við erum að drullast niður á ógnarhraða fallhlífarlausir í átt að Austur-Evrópuríki. Það er hins vegar nauðsynlegt að líta dálítið á björtu hliðarnar. Meðalmaður nær lokahraða eftir u.þ.b. 14 sek. fall. Þetta þýðir að eftir þessar 14 sekúndur hafa þyngaraflið og núningsmótstaðan náð jafnvægi og hraði okkar eykst ekki meir. Því skiptir litlu máli hvort fallið sem um ræðir sé 1000 eða 10.000 metrar. Ef eitthvað þá er hærra fallið nú skárra því það gefur okkur tíma til að hugsa eitthvað sniðugt.
Er laus fallhlíf einhvers staðar fljúgandi í kringum okkur? Nei, það væri kannski fullbjartsýnt. Hins vegar allt sem dregur úr hraða okkar er af hinu góða. Mun fleiri hafa lifað af föll innan í flugfari en utan þess. Jafnvel bútur úr væng er skárri en ekki neitt.
Þegar kemur að því að velja lendingarstað er gott að hafa reynslu fyrirrennara okkar í huga. Vatn virðist ekki vera heppilegur miðill til að enda ferðina í. Tökum eftir að við munum líklegast rotast og brjóta fjölmörg bein í lendingunni. Því er ólíklegt að okkur muni takast að synda aftur upp á yfirborðið jafnvel þótt við lifum af sjálft fallið. Þeir sem lifað hafa af frjáls föll hafa oftast lent í háum trjám eða í þykkum snjósköflum.
Þegar lent er skal minnast þess að heilinn í okkur er það verðmætasta sem við eigum. Án hans er restin til lítils. Reynum að vernda hausinn með öllum tiltækum ráðum og lendum með fætur á undan. Það mun kosta alvarleg fótbrot og líklegast mænuskaða en vonandi verður lukkan með okkur og við munum lifa þetta af.
Bjartsýnispunktur í lokin: Júgóslavneska flugfreyjan Vesna Vulovic var sú eina sem lifði af þegar flugvél hennar sprakk yfir Tékkóslóvakíu í janúar 1972. Hún lamaðist fyrir neðan mitti en náði sér síðan og getur gengið á eigin fótum í dag. Talið er að króatískir hryðjuverkamenn hafi staðið fyrir sprengingunni.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021