Hillaryland

1hillary.jpgHillary Rodham Clinton gaf nýverið út æviminningar sínar, „Living History“. Skrifstofa Hillary í Hvíta Húsinu var kölluð Hillaryland en hvort vesturálman verði einn daginn öll Hillaryland er óvíst. Æviminningar hennar hafa hins vegar skapað henni vinsældir og tryggt stöðu hennar sem Demókrata sem getur látið til sín taka í kosningabaráttu.

1hillary.jpgHillary Rodham Clinton gaf nýverið út æviminningar sínar, „Living History“. Bókin hefur á stuttum tíma orðið mjög vinsæl. Síðan hún kom út í júní hefur hún selst í 1,2 milljónum eintaka. Fyrsta daginn seldust um 200.000 eintök. Til samanburðar má geta þess að æviminningar Colin Powells sem komu út eftir Persaflóastríðið hafa selst í 1,6 milljónum eintaka á átta árum. Til að fylgja bókinni úr hlaði hefur Hillary verið dugleg að ferðast um Bandaríkin til að árita bókina en einnig hefur hún farið til Evrópu til að árita hana.

Viðbrögð við bókinni hafa verið blendin eins og gefur að skilja þegar áberandi og umdeildur stjórnmálamaður gefur út æviminningar sínar. Andstæðingar Hillary hafa jafnvel gengið svo langt að kalla bókina „Lying History“ en í bókinni felur Hillary ekki andúð sína á Repúblikönum og störfum þeirra og hampar Demókrötum í hverri málsgrein.

Í bókinni fjallar Hillary mikið um áherslu sína á málefni barna og kvenna. Hillary leggur einnig mikla áherslu á ferðalög sín um heiminn, þekkingu á utanríkismálefnum og vináttu við alla helstu leiðtoga annarra ríkja. Sérstaka athygli fá Blair hjónin og sameiginlegt áhugamál þeirra og Clinton hjónanna, hin svokallaða þriðja leið. Á ferðalögum sínum um heiminn hefur hún einnig lagt áherslu á málefni sem tengjast menntun, jafnrétti og stöðu kvenna á atvinnumarkaði. Hillary fjallar um þær móttökur sem hún hefur fengið víðs vegar og sérstaklega hefur kafli um Kína valdið athygli. Vangaveltur Hillary um aðstæður í Kína og hvort hún og eiginmaður hennar ættu að taka þátt í athöfn á Torgi hins himneska friðar hafa valdið því að bókin var ritskoðuð í Kína, að minnsta kosti tíu hlutum bókarinnar hefur verið breytt í kínversku útgáfunni.

Hún nefnir ítrekað störf sín sem snúa að endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins. Meðan eiginmaður hennar Bill Clinton var forseti tók hún þátt í vinnslu þeirra tillagna sem forsetinn vann að í tengslum við breytingar á heilbrigðiskerfinu en þær voru aldrei samþykktar í þinginu þar sem Repúblikanar voru í meirihluta. Bókin snertir einnig á ýmsum málum sem reynst hafa Hillary erfið eins og Whitewater fjármálahneykslið og kynlífshneyksli eiginmanns hennar með Monicu Lewinski. Hillary setur fram sína skoðun á ástæðum atburðanna og fer ófáum ómjúkum orðum um Whitewater rannsóknina og þá sem stóðu að henni. Hjúskaparbrot eiginmannsins reyndu mikið á hana en mikilvægi þess að þau kláruðu forsetatíð hans saman skipti hana augljóslega mestu máli, hún trúði á hann sem forseta en ekki sem eiginmann á því tímabili og segist hafa staðið með manni sínum fyrir bandarísku þjóðina. Athyglisvert er að Hillary varpar oft fram spurningum í tengslum við hjúskaparbrotin sem hún segir að Bill verði að svara sjálfur en æviminningar hans verða gefnar út á næsta ári.

Skrifstofa Hillary í Hvíta Húsinu var kölluð Hillaryland og ljóst af lestri bókarinnar að hún kunni vel við sig í forsetabústaðnum. Skrifstofa forsetafrúarinnar hafði áður ekki verið í vesturálmunni en Hillary krafðist þess að hennar starfsfólk væri í vesturálmunni og tæki virkan þátt í starfsemi skrifstofu forsetans. Samstarf Hillary við forsetann hljómar náið framan af forsetatíð hans og ljóst að hún dregur engan dul á það að hún þekki allar hliðar forsetastarfsins. Hvort vestur álman verði einn daginn öll Hillaryland er hins vegar óvíst. Hvort Hillary mun blanda sér í forsetaslaginn árið 2004 með Wesley Clark eða einbeita sér að því að sækjast eftir endurkjöri sem þingmaður árið 2006 er einnig óvíst. Ljóst er hins vegar að æviminningar hennar hafa skapað henni vinsældir og tryggt stöðu hennar sem Demókrata sem getur látið til sín taka í kosningabaráttu.

Latest posts by Berglind Hallgrímsdóttir (see all)