Verksvið ríkisvaldsins er sívarandi umfjöllunarefni stjórnmála okkar tíma. Menn hafa mjög skiptar skoðanir á málinu en þó er sú hugarstefna ríkjandi í samfélaginu, að hlutverk ríkisvaldsins eigi að vera minna en meira. Lægsti samnefnarinn í þessu máli, ef undan eru skildar skoðanir stjórnleysingja, er sá, að það sé eina hlutverk ríkisins, að halda uppi löggæslu og landvörnum. Það sé frumskylda þess og í raun réttlæting á slíkri miðstýrðri stofnun með rúmar vald- og nauðungarheimildir. Þetta er lægsti samnefnarinn en flestir telja reyndar að skyldur ríkisins séu fleiri.
Mannréttindi borgaranna eru upphaflega hugsuð sem vörn þeirra gagnvart ofríki ríkisvaldsins. Þetta eru hin s.k. neikvæðu mannréttindi, sem krefjast athafnaleysis af hálfu ríkisvaldsins. Hins vegar eru s.k. jákvæð mannréttindi sem krefjast athafna af hálfu ríkisvaldsins, svo borgararnir geti notið þeirra. Þetta eru réttindi sem oft eru kölluð menningar-, félagsleg og efnahagsleg réttindi, en hin fyrstnefndu, t.d. rétturinn til tjáningarfrelsis og eignarrétturinn, kölluð stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi. Um þetta hefur áður verið fjallað hér í Deiglunni.
Þær kröfur verða sífellt háværari sem krefjast jákvæðra mannréttinda af hálfu ríkisvaldinu og telja margir að mannréttindahugtakið sjálft sé að vera ansi þunnt þegar ólíklegstu réttindi, eins og rétturinn til að fá niðurgreiðslu á lánum, eru talin meðal mannréttinda. Á meðan athygli ríkisvaldsins beinist í æ ríkari mæli að þessum jákvæðu mannréttindum sitja þau neikvæðu, sem ég vil kalla grundvallarmannréttindi til aðgreiningar frá lúxusmannréttindunum, á hakanum. Þannig þekki ég mörg dæmi þess að óprúttnir einstaklingar komast upp með afbrot og hótanir gagnvart samborgurum sínum, af því að lögreglan treystir sér ekki til að sinna refsivörslunni. Þarna á ég einkum við innbrot og önnur auðgunarbrot, auk líkamsmeiðinga og eignaspjalla, sem heiðvirðir borgarar sæta í vaxandi mæli af völdum misyndismanna. Í óefni er komið í þessum málum og ef fram heldur sem horfir mun það gerast í vaxandi mæli að borgararnir taka lögin í sínar hendur.
Ég er ekki að hvetja til þess að á fót verði komið lögregluríki á Íslandi. En réttarríkið, sem er grundvöllur lýðræðislegs og frjáls samfélags, er hjóm og hjóm eitt ef ríkisvaldið treystir sér ekki til að vernda grundvallarmannréttindi borgaranna, af því að það er svo upptekið af því að veita þeim lúxusmannréttindi. Ef sú er raunin, þá er réttlætingin og sjálfur grundvöllur ríkisvaldsins hruninn.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021