Stjórnmálaflokkurinn Venstre hér í Danmörku hefur nú sett fram tillögur um 20 svið, þar sem hann vill að starfræksla ákveðinna verkefna verði flutt úr höndum hins opinbera yfir til einkaaðila. Flokkurinn telur að á þessum sviðum geti kostir einkaframtaksins skilað sér í lægri ríkisútgjöldum.
Menn mega ekki láta nafnið rugla sig þegar minnst er á danska stjórnmálaflokkinn Venstre. Stjórnmálaflokkur þessi er, þrátt fyrir að nafnið gæti bent til annars, stór, hófsamur hægriflokkur, með ríflega 30 % fylgi á landsvísu og hefur því svipaða stöðu í dönskum stjórnmálum og Sjálfstæðisflokkurinn í íslenskum. Venstre leiðir nú hægri stjórn í Danmörku, sem auk þess íhaldsmenn (Konservative) eru í, og danski þjóðarflokkurinn (Dansk Folkeparti) ver falli.
Tillögur þær sem Venstre hefur nú lagt fram gera ráð fyrir að hægt sé að láta einkaaðila sinna m.a. eftirtöldum verkefnum, enda þótt greitt sé fyrir þau úr ríkissjóði:
– Rekstur safna
– Útgáfa vegabréfa og ökuskírteina
– Hafrannsóknir
– Vinnumiðlun
– Bifreiðaskoðun
– Ráðgjafarþjónusta ýmiss konar
– Rekstur háskóla
– Flutningur fanga
– Þinglýsingarstarfsemi
– Rekstur fangelsa
Ein frumlegasta hugmynd Venstre, sem er þó hugsanlega á mörkum þess að vera framkvæmanleg, er sú að starfsmenn sveitarfélaga, t.d. sem starfa við gatnagerð og viðhald gatna, geti, á grundvelli ákveðinna reglna, keypt vélar og tæki frá sveitarfélaginu eða annars staðar frá, og sett á fót eigið fyrirtæki sem sveitarfélagið keypti þá þessa tilteknu þjónustu af.
Þrátt fyrir að á listanum hér að ofan séu atriði sem einkaaðilar sjá að mestu leyti einir um heima á Íslandi, eins og t.d. vinnumiðlun, þá eru þarna einnig talin upp verkefni sem íslenska ríkið framkvæmir. Má þar nefna þinglýsingar, rekstur fangelsa, hafrannsóknir, og rekstur margs konar safna. Undirritaður telur að kanna eigi hvort, og þá hvað, standi því í vegi að einkaaðilar sjái um þessi verkefni á Íslandi. Líklegt er að þeir sæju ýmsa mögleika á hagræðingu á þessum sviðum, og þar með gætu útgjöld ríkisins til þessara málaflokka lækkað.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006