Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum, að í dag er réttur áratugur liðinn síðan Davíð Oddsson varð forsætisráðherra. Það er vissulega að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um valdatíð Davíðs Oddssonar og einkenni hans sem stjórnmálamanns, en það ætlar Deiglan engu að síður að gera í dag. Davíð Oddsson er einn merkasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar – það verða jafnvel áköfustu hatursmenn hans að viðurkenna.
En hver er lykillinn á bak við pólitíska velgengni Davíðs? Í fljótu bragði eru skýringarnar á hraðbergi; hann er klókur stjórnmálamaður; ferst vel að ráða í flóknar stöður; fylginn í sér; sniðugur þegar á þarf að halda; kemur vel fyrir í sjónvarpi, þar sem hann virðist ná persónulegra sambandi við áhorfandann en aðrir stjórnmálamenn; hann virðist taka meira mark á brjóstviti sínu og réttlætiskennd en tíðarandanum og pólitískri rétthugsun; og síðast en ekki síst, þá hefur hann reynst samstarfsmönnum sínum, ekki síst í öðrum flokkum, traustur bandamaður.
Allt ofantalið er reyndar háð huglægu mati. Það finnst t.a.m. ekki öllum Davíð vera sniðugur eða koma vel fyrir í sjónvarpi, ýmsum kann líka að finnast að hann stjórnist ekki af réttlætiskennd heldur af einhverju allt öðru. Látum það liggja á milli hluta. Þeirri staðreynd verður hins vegar ekki hnikað, að þrisvar sinnum í röð hefur þjóðin gefið Davíð umboð til að mynda og leiða ríkisstjórn, og þar áður höfðu Reykvíkingar í þrígang treyst Davíð fyrir stjórn borgarinnar. Er það ekki býsna góð (hlutlæg) einkunn?
Andstæðingar Davíðs segja gjarnan að það sé vissulega nokkuð merkilegt að hann hafi setið þetta lengi á valdastóli en í raun hafi hann ekki skilað neinum sérstökum árangri. Framfarir síðasta áratugar séu ekki Davíð Oddssyni að þakka. Um þennan málflutning fjallaði Deiglan í pistli fyrir rúmum tveimur árum, 19. febrúar 1999:
Það er hins vegar hárrétt hjá forystumönnum stjórnarandstöðunnar að góðærið er ekki Davíð Oddssyni að þakka. Góðærið er nefnilega einstaklingunum sem mynda þjóðfélagið að þakka. Grundvallarmunur er á afstöðu vinstri og hægri manna til þess hvernig stjórna skuli. Vinstristefnan er byggð á því að ríkisvaldið sjái um að þjóðfélagið gangi og stjórnmálamenn séu helst með öll málefni einstaklinga á sínum höndum. Hægristefnan byggist hins vegar á því að einstaklingarnir sjálfir séu hið dýnamíska afl sem knýr þjóðfélagið áfram, fái þeir til þess frið frá ríkisvaldinu.
Þess vegna er góðærið ekki Davíð Oddssyni að þakka. Það er hins vegar guðs þakkarvert að Davíð Oddsson, sem forsætisráðherra, aðhyllist stjórnarstefnu sem gefur einstaklingum tækifæri til góðra verka. Góðærið er sprottið af þeirri stefnu.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008