Í síðustu viku átti sér stað bylting í japönskum stjórnmálum. Öllum á óvart sigraði Junichiro Koizumi með yfirburðum í innanflokkskosningum um leiðtogaembætti í LDP í óþökk helstu fylkinganna í flokknum. Sigurinn var svo afgerandi að þingmenn LDP sáu sig í kjölfarið knúna til þess að kjósa hann forsætisráðherra Japans. Sigur Koizumi er gríðarlegt áfall fyrir stóru valdablokkirnar innan LDP en að sama skapi sigur fyrir grasrótina í flokknum og einnig þá sem á undanförnum árum hafa barist fyrir róttækum pólitískum og efnahagslegum breytingum þar í landi.
Flestir vita að japanska hagkerfið hefur á undanförnum árum átt í miklum erfiðleikum. Færri þekkja hins vegar hversu rotin japönsk stjórnmál eru. LDP hefur ráðið lögum og lofum í landinu allt frá stríðslokum. Í dag byggist styrkur flokksins að stórum hluta á úreltri kjördæmaskipan, sem hyglir fámennum sveitahéröðum á kostnað borganna, og einnig á nánum tengslum flokksins við efnahagslegar valdablokkir landsins. Skipulag flokksins er gríðarlega híerarkíst og hafa nokkrar fylkingar lengi vel ráðið lögum og lofum innan flokksins. Þeir sem hafa viljað komast til æðstu metorða í japönskum stjórnmálum hafa því þurft að vinna sig upp í gegnum metorðastiga flokksins og einnig metorðastiga einhverrar fylkingarinnar innan flokksins. Þetta hefur gert það að verkum að forsætisráðherrar Japans hafa á undanförnum árum verið í eldri kantinum, fremur litlausir og tregir til þess að ráðst í umbætur vegna tengsla sinna við hina ýmsu hagsmunahópa samfélagsins.
Koizumi er þvert á móti ungur og með úfið hár. Hann er fráskilinn, ku hlusta á þungarokk, eyða stórum fjárhæðum á skemmtistöðum og flytja ástríðufullar ræður (allt fremur óvenjulegt á meðal japanskra stjórnmálamanna). Slagorð hans í baráttunni um leiðtogaembætti LDP var „breytum LDP til þess að breyta Japan”. Hann hefur lýst yfir að hann ætli sér að ráðast í miklar umbætur bæði í efnahagsmálum og hvað varðar stjórnkerfi Japans. Í efnahagsmálum ætlar hann að draga verulega úr ríkisútgjöldum, gera japönskum bönkum að taka á útlánatöpum sínum (aðgerð sem gæti leitt til víðtækra gjaldþrota banka of annarra fyrirtækja) og einkavæða póst-sparnaðarkerfi Japana, sem sér um stærsta verðbréfasjóð heims. Þar að auki hefur hann lýst yfir að hann ætli að brjóta upp valdablokkirnar innan LDP og gera flokkin lýðræðislegri.
Það er reyndar ólíklegt að Koizumi takist ætlunarverk sitt. Þrátt fyrir þennan ósigur eru hinar hefðbundnu fylkingar flokksins enn til alls líklegar. Ef til vill hafa þær einungis leyft honum að sigra vegna þess að þær vissu að annars myndi flokkurinn bíða afhroði í kosningum til efri deildar þingsins í júlí. En hvað sem slíkum vangaveltum líður þá er sigur Koizumis til merkis um vaxandi vandlæti Japana á hefðbundnum stjórnarháttum LDP. Sigur hans er án efa fyrsta skrefið í mikilli uppstokkun LDP, japanska hagkerfisins og lýðræðisins í Japan.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009