Þegar þetta birtist á síðum íslenska internetsins verður pistlahöfundur líklega nýlentur á flugvelli Karls frá Gallíu (Charles De Gaulle) í borg Gustavs Eiffel og situr þar á kaffihúsi að borða “croissant” og drekka rauðvín. Hinn hefðbundni Parísarhringur verður væntanlega tekinn með stoppum í Eiffelturninum og Sigurboganum og þaðan rölt niður Meistaravelli (Champs Elysee) með alpahúfu á höfðinu og svo tekið langt hádegi á einu af fjölmörgum veitingastöðum gömlu Lútesíu. Hennar frúar kirkja við Signu og Latínu hverfið verða eflaust heimsótt og mannlífið í einni af litríkustu borgum Evrópu drukkið í sig.
París stendur alltaf fyrir sínu og skal ég trúa því að margir sem þetta lesa vilja heldur vera staddir þar um helgina en heima á kaldri og sudddalegri Frónni. Í sjálfu sér er hægt að framkvæma flest það, sem kom fram hér að ofan, á Íslandi. Það er hægt að borða “croissant” og drekka rauðvín á kaffihúsi, reyndar fyrir verð sem er ekki frjálsri þjóð sæmandi. Það er m.a.s. hægt að ganga með alpahúfu á höfðinu í rokinu niður Meistaravelli og enda hjá “sigurboga” hinna hvítröndóttu á KR-vellinum. Ekki er hann jafntignarlegur og sá í París né er hann sérlega bogadreginn en engu að síður er þar minnisvarði um sigra Vesturbæinga í gegnum árin.
Leggi menn þetta ekki á sig í norðangarranum er kannski bara best að halda sig innandyra og kúra sig upp í sófa fyrir framan sjónvarpið. Það er í það minnsta möguleiki að koma ákaflega litlu í verk þannig. Það væri t.a.m. tilvalið að skella í tækið fyndinni ræmu eftir þá ZAZara því þeim bregst sjaldan bogalistin við að kreysta hláturtaugarnar í fólki. Það er því tilvalið fyrir þá sem langar til að hlæja um helgina að rifja upp kynnin við þá félaga og ekki spillir fyrir ef verk þeirra hafi ekki áður borist til vitja hláturfíkla.
ZAZ-stendur fyrir Zucker, Abrahams, Zucker og er þríeyki kvikmyndargerðarmanna sem gerði það gott snemma á níunda áratuginum. Frægasta mynd þeirra er líklega Airplain sem gerði stólpagrín að stórslysamyndum áttunda áratugarins. Af öðrum þekktum grínmyndum þeirra má nefna Naked-Gun myndirnar og Hot Shots! myndirnar. Í þessa upptalningu vantar Top Secret! sem að margra mati, a.m.k. pistlahöfundar, er ein alfyndnasta mynd gerð hefur verið. Myndin er skopstæling á mörgum Elvis-myndanna, njósnamyndum og The Blue Lagoon fær háðulega útreið í myndinni. Hún gerist í Austur-Þýskalandi, líklega á 6. áratugi síðustu aldar, og fjallar um svívirðileg áform austur-þýska hersins til að ná yfirráðum yfir kafbátaflota NATO. Top Secret! er einn brandari frá upphafi til endaog ómögulegt er að taka eftir þeim öllum við fyrstu skoðun og munið að spóla ekki yfir kynningarlagið. Margar ógleymanlegar persónur er að finna í myndinni eins og bóksalann Sven Jörgensen, andspyrnumanninn Latrine, njósnarann Cedric, “kyndilinn” Nigel og svo auðvitað söngvarann Nick Rivers, sem leikinn er af Val Kilmer í sínu fyrsta kvikmyndahlutverki.
Mælt er með Top Secret! um helgina fyrir hláturfíkla.
|
Þeir sem hafa ákveðið að leggja ekki land undir fót og ætla að taka það rólega um helgina ættu því að íhuga alvarlega að skella sér út á myndbandaleigu og ná sér í a.m.k. Top Secret! og Airplain á VHS eða DVD. Uppskrift að fyndinni helgi það er víst.
Au revoir!
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008