Tillögur félagsmálaráðherra um talsverða hækkun húsnæðislána í áföngum á næstu fjórum árum hefur talsvert verið gagnrýnd af fjölmörgum aðilum, meðal annars í pistli hér á Deiglunni í júní síðast liðnum af undirrituðum. Þar kom fram að aðilar sem tengjast íslenskum fjármálmarkaði og einnig Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi varað við þessum hugmyndum, og að þær rúmist illa innan núverandi efnahagsramma án þess að stöðugleika sé ógnað. Ennfremur segir þar:
„Minna hefur verið rætt um þá samkeppni á lánamarkaði sem ríkisvaldið er að veita bönkum og fjármálafyrirtækjum með ríkistryggðum lánum, en stutt er síðan stjórnvöld stigu það gæfuspor að draga sig út úr almennri bankastarfssemi. Kosningaloforð framsóknarmanna ganga þar þvert á þá stefnu að minnka umsvif ríkisins á fjármálamarkaði. Þessar aðgerðir munu enn frekar festa hlutverk ríkisins sem stærsta einstaka lánveitanda fjármálakerfisins og hrifsa til sín viðskipti frá bönkunum sem nýbúið er að selja.“
Umræðan um að viðskiptabankar taki við afgreiðslu þessara lána af Íbúðalánasjóði gerist sífellt háværari, enda er ríkisvaldið hér í beinni samkeppni við þá á lánamarkaði. Ekki nóg með að ríkisvaldið sé í samkeppni við einkaaðila sem geta auðveldlega sinnt þessari þjónustu, heldur skekkir það samkeppnina með ríkisábyrgð og reglum um eiginfjárhlutföll og útlánaafskriftir sem eru mun rýmri fyrir Íbúðalánasjóð en aðra aðila.
Í febrúar á þessu ári gáfu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) út skýrslu þar sem kynntur er samanburður á fyrirkomulagi húsnæðislána hér á Íslandi og hjá nágrannalöndum okkar. Í þeim samanburði kemur fram að sérstaða Íslands í þessum efnum er að verða alger þar sem við höfum dregist verulega afur í þróun þessara mála. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að SBV telur þrjár leiðir koma til greina við færslu húsnæðislánakerfisins yfir til fjármálafyrirtækja án þess að breyting yrði á kjörum lántakenda til húsnæðiskaupa, svonefnd markaðsleið, yfirtökuleið og verðbréfunarleið.
Samkvæmt markaðsleiðinni þá mun ríkisvaldið draga sig í áföngum út af almenna húsnæðislánamarkaðnum. Við það munu vaxtarkjör á húsnæðismarkaðnum hækka þar sem ríkisábyrgðin yrði aflögð, en gert er ráð fyrir að því sé mætt með hækkun vaxtabóta. Yfirtökuleiðin gengur út á að markaðurinn yfirtaki lánveitingar Íbúðalánasjóðs en ríkisábyrgðinni yrði viðhaldið. Vaxtakjör yrðu þá óbreytt. Verðbréfunarleiðin gengur út á að hlutverki Íbúðalánasjóðs verði breytt þannig að hann hefði það hlutverk að annast endurfjármögnun húsnæðislána en lánveitingarnar færðust hins vegar til markaðarins. Vaxtakjör myndu þá ekki breytast.
Augljósasti kostur lántakenda við það að fjármálafyrirtæki annist afgreiðslu húsnæðislána, er sá að öll viðskipti gætu verið á einum stað. Þau hafi heildarsýn yfir skuldbindingar viðskiptamanna sinna og eru því í betri aðstöðu til að fylgjast með og veita ráðgjöf um fjármál hvers og eins, ef húsnæðislán eru einnig á þeirra hendi. Það ætti að mati skýrsluhöfunda síðan að leiða til minni vanskila og lægri afskrifta húsnæðislána. Þá segir að gera megi ráð fyrir að aðkoma fjármálafyrirtækja leiði til aukinnar vöruþróunar, svo sem möguleika lántakenda á að velja á milli skammtíma- og langtímavaxta eða breytilegra og fastra vaxta.
Ein helsta gagnrýni sem fram hefur komið á yfirtöku bankanna er sú að álögur á lántakendur muni aukast í formi þjónustugjalda. Í skýrslu SBV kemur fram að fyrri tvær leiðirnar sem nefndar voru hér að ofan, þ.e. markaðsleiðin og yfirtökuleiðin, kalli ekki á fjölgun starfa í fjármálafyrirtækjum. Þar sem yfirtökuleiðin er sennilega fýsilegasti kosturinn (að markaðurinn yfirtaki lánveitingar Íbúðalánasjóðs en ríkisábyrgðinni yrði viðhaldið) þá er ljóst að allar aðstæður eru þegar fyrir hendi hjá fjármálafyrirtækjum og yrði hækkun á þjónustugjöldum því hverfandi.
Það er von margra að ríkisvaldið færa húsnæðislánin í áföngum yfir í bankakerfið og Íbúðalánasjóður sinnti þá aðeins félagslegum íbúðalánum. Við það myndi hagur bæði lántakenda og hins frjálsa markaðar batna til munar.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007