Skeljungur á heiður skilinn fyrir að hafa haft kjark til þess að brjóta sig út úr því verðsamráðskerfi sem verið hefur við líði á bensínmarkaði á Íslandi um nokkurra ára skeið. Hækkanir Esso og Olís þriðja og fimmta maí voru auðvitað í engu samræmi við það sem talsmenn olíufélaganna hafa haldið fram á undanförnum misserum um að verðbreytingar ráðist af meðalgengi mánaðar og meðalverði bensíns á heimsmarkaði. Það tók þessi félög vikur ef ekki mánuði að lækka verðið þegar heimsmarkaðsverð var síðast á niðurleið. Þá sögðust félögin eiga svo mikið af birgðum að ekki væri hægt að lækka strax. Mikið óskaplega hlýtur að hafa staðið illa á með birgðir um þessi mánaðarmót.
Fyrrnefnd ummæli talsmanna olíufélaganna um það hvernig verð á bensíni ákvarðast voru vitaskulda aldrei sérlega trúverðug. Olíufélögin eru vitaskuld ekki í neinni góðgerðarstarfsemi. Þau setja upp eins hátt verð og þau komast upp með. Sem sagt, verðið ræðst af samkeppninni á markaðnum. Og á undanförnum árum hefur bensínmarkaðurinn á Íslandi borið mörg einkenni verðsamráðs: Hækkanir eiga sér stað á fyrirfram ákveðnum dögum. Fyrst hækkar einn (oftast Esso) og síðan fylgja allir í kjölfarið og hækka um það sama. Hér er í raun skólabókardæmi um markað þar sem eitt fyrirtæki tekur að sér að leiða markaðinn. Í hagfræði er slíkt kallað Stackelberg jafnvægi, og Esso er hinn svokallaði Stackelberg-leiðtogi markaðarins.
En nú virðist leiðtoginn hafa orðið einum of gráðugur. Skeljungur sá sér loks hag í því að fylgja ekki hækkun leiðtogans. Samkvæmt leikjafræði ætti þetta að leiða til skammvins verðstríðs þar sem Esso sýnir Skeljungi að það borgar sig ekki að bregða út af kerfinu. Síðan ættu hlutirnir að færast í sama farið á ný.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009