Fækkun nemenda í hverri bekkjardeild er á meðal þess sem mest er fjallað um þegar umbætur í skólakerfinu eru til umræðu. Flestir virðast telja að slík fækkun leiði til betri námsárangurs þar sem nemendur fái meiri athygli kennara. Á Íslandi hefur fækkun nemenda í hverri bekkjardeild lengi verið eitt af markmiðum stjórnvalda.
Nýlegt eintak af vefriti menntamálaráðuneytisins (18. september 2003) bendir á það sem jákvæðan vitnisburð um íslenska menntakerfið að: „Þegar kemur að meðalfjölda nemenda í hverri bekkjardeild í grunnskóla standa Íslendingar í fremstu röð með um 17 nemendur en meðaltal OECD-ríkja er 22 nemendur á bekkjardeild.”
Síðasta áratuginn eða svo hefur hins vegar komið í ljós í fjölda rannsókna að fækkun nemenda í hverri bekkjardeild niður fyrir 25 hefur engin áhrif á námsárangur. Rannsóknir sýna að fækkun nemenda niður fyrir 40 hefur jákvæð áhrif á námsárangur en fækkun niður fyrir 25 hefur það ekki.
Þessar niðurstöður varpa mikilvægu ljósi á samband námsárangurs og útgjalda til menntamála. Margir hafa bent á það á undanförnum árum að lítið sem ekkert samband sé milli þessara stærða fyrir OECD ríki. Skýringin liggur líklega að stórum hluta í því að þau OECD ríki sem verja mestu fé til menntamála hafa verið að leggja áherslu á aðgerðir sem hafa engin áhrif á námsárangur, s.s. fækkun nemenda í hverri bekkjardeild.
Fækkun nemenda í hverri bekkjardeild er gríðarlega dýr stefna. Verulegur sparnaður myndi verða af því að fjölga nemendum í hverri bekkjardeild á Íslandi úr 17 í 25. Fjármagnið sem myndi sparast væri unnt að nota í annars konar aðgerðir til þess að ýta undir betri námsárangur.
Rannsóknir benda til þess að gæði kennara hafi veruleg áhrif á námsárangur. Íslensk stjórnvöld ættu því að stefna að því að fjölga nemendum í hverri bekkjardeild úr 17 í 25 og nota það fjármagn sem sparast til þess að hækka laun kennara. Slíkar aðgerðir eru líklega hagkvæm leið til þess að bæta námsárangur íslenskra barna.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009