Mjög sláandi frétt birtist í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag. Þar er sagt frá breskum sjónvarpsþætti sem fjallar um afstöðu kaþólsku kirkjunnar þegar kemur að notkun smokksins. Í þættinum er haldið fram að erindrekar kaþólsku kirkjunnar segi fólki að HIV-veiran sleppi í gegn um lítil göt á smokkum og því séu þeir engin vörn gegn eyðnismiti. Einnig er því haldið fram, að málflutningurinn gangi svo langt, að staðhæft sé við fólk að smokkar séu smurðir HIV-veirunni. Auk þess kemur fram að erkibiskupinn í Nairobi telji auðvelt aðgengi að smokkum vera ástæðu mikillar útbreiðslu alnæmis þar í landi en þar er fimmti hver landsmaður eyðnismitaður.
Kaþólska kirkjan hefur auðvitað allan rétt á því að tjá sínar fornaldarskoðanir í upplýstum samfélögum á vesturlöndum en málflutningur eins og lýst er hér að ofan er ekkert nema glæpsamlegur í óupplýstum samfélögum í Afríku. Enda hafa þeir aðilar sem stunda slíkan málfluting ófá mannslíf á samviskunni.
Fáfræðin á þessum málum er mikil í Afríku og sú þjóðsaga er útbreidd meðal eyðnismitaðra karlmanna að þeir læknist af sjúkdómnum ef þeir hafa samræði við hreina mey. Þeir leita því eftir samræði við ungar stúlkur og smita þannig verðandi mæður þessara landa. Á hverjum degi er börnum, alveg niður í kornabörn, nauðgað í Zambiu af eyðnismituðum karlmönnum sem leggja trúnað á þessa þjóðsögu og samskonar fréttir heyrast frá öðrum ríkjum Afríku s.s. Suður-Afríku.
Það hlýtur að vera eitt af brýnustu verkefnum alþjóðasamfélagsins að stuðla að því að afrísk samfélög séu upplýst um þessa hluti enda eru heilu kynslóðirnar víða að þurrkast út af völdum eyðniveirunnar. Koma þarf í veg fyrir þjóðsögur sem þessa og upplýsa almenning í þessum löndum um eðli og smitleiðir sjúkdómsins svo ekki sé minnst á að stöðva málflutning eins og þann sem kaþólska kirkja heldur uppi.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007