Verði af kaupum feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og viðskiptafélaga þeirra Magnúsar Þorsteinssonar á ráðandi hlut í Landsbanka Íslands er ljóst að landslag íslensks viðskiptalífs gjörbreytist. Forsætisráðherra segist í Morgunblaðinu í dag fagna þeim áhuga sem þremenningarnir sýni Landsbanka Íslands og bendir á að þeir hafi ávaxtað sitt pund erlendis og það sé afskaplega ákjósanlegt og þakkarefni í sjálfu að þeir vilji færa þá peninga eða hluta þeirra heim til fjárfestingar hér. Fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að einkavæðingarnefnd samþykki erindi þremenninga um að hefja viðræður og ef þeim viðræðum lýkur með samkomulagi um kaup á bréfum ríkisins í Landsbankanum yrði um að ræða afar merkileg tímamót.
Í fyrsta lagi hefði ríkisstjórnin með sölunni stigið risastórt einkavæðingarskref og þá yrði Búnaðarbankinn einn eftir í eigu ríkisins. Fráleitar hugmyndir vinstri flokkanna um „einn öflugan ríkisbanka“ yrðu þar með úr sögunni og lagðar fyrir ásamt öðrum hugmyndum þeirra á ruslahaug stjórnmálasögunnar. Salan yrði þannig enn ein rósin í hnappagat ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og staðfesting á þeirri umbreytingu til hins betra sem orðið hefur á íslensku efnahagslífi undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Í öðru lagi myndu kaupin marka fyrir alvöru nýja innreið Björgólfs Guðmundssonar í íslenskt atvinnulíf og víst er að þetta „come back“ yrði seint toppað. Björgólfur háði ýmsa hildi hér á landi fyrr á árum og hafði þá lengst af vindinn í fangið. Lengst af síðustu öld einkenndist íslenskt viðskiptalíf af eindreginni blokkamyndun. Sambandið og hinn svokallaði „Kolkrabbi“ áttust þá við á markalínu sem lá eins og rauður þráður um allt viðskiptalífið. Auðvitað verða alltaf til staðar einhverjar blokkamyndanir en sem betur fer þá ber sífellt minna á þeim.
Í þriðja lagi er það til marks um aukið frelsi í íslensku atvinnulífi að fleiri og fleiri einstaklingum tekst af eigin rammleik að byggja upp fyrirtæki og efnast verulega. Sem dæmi um slíka aðila má nefna Samherjafrændur fyrir norðan, Bónusfeðgana Jóhannes og Jón Ásgeir, félagana í Bakkavör, og svo auðvitað Björgólfana og Magnús Þorsteinsson. Hver og einn þessara aðila hefur mikinn slagkraft í íslensku efnahagslífi. Tök gömlu blokkanna eru þó enn mikil, sérstaklega yfir olíu-, trygginga- og flutningafyrirtækjum, sem og í sjávarútvegi. Þá er bitist um bankana og sparisjóðina, enda eftir miklu að slægast þar. Mestu máli skiptir þó að ríkið dragi sig alfarið út úr slíkum rekstri og að viðskiptaleg sjónarmið fái ráðið við rekstur bankakerfisins.
Deiglan tekur undir með forsætisráðherra og fagnar áhuga þremenninganna á bréfum ríkisins í Landsbanka Íslands. Jafnframt er ástæða til að hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa búið til nýtt landslag í íslensku viðskiptalífi á undanförnum ellefu árum. Með því halda sig til hlés og veita einstaklingum tækifæri til góðra verka hefur ríkisstjórnin lagt það besta sem hún gat af mörkum. Enn eru óunnin verk á sviði einkavæðingar og ýmsum hömlum á eftir að aflétta – en sporin eru flest í rétta átt og ekki er nein ástæða til að kvíða framhaldinu.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021