Í dag birtir vefrit Ungra jafnaðarmanna www.politik.is opið bréf til þeirra 1152 ungra manna og kvenna sem fengu ekki að skrá sig í Heimdall í aðdraganda aðalfundar Félagsins. Andrés Jónsson formaður UJ er skrifaður fyrir bréfinu og segir hann meðal annars:
Um daginn gerði Múrinn það að umfjöllunarefni sínu hvernig þeim fyndist sem Samfylkingin hefði það að einu markmiði sínu að verða stór, helst stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Eflaust hlægja menn nú hátt þar á bæ þegar hátt í 1200 tilvonandi ungir Sjálfstæðismenn eru boðnir velkomnir í Samfylkinguna. En þrátt fyrir að þetta opna bréf UJ sé eflaust fyrst og fremst skrifað með gamansemi í huga má ekki gleyma að hugsanlega hafa Ungir Jafnaðarmenn sitt hvað til síns máls.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn hrindir frá sér þeim frjálslyndu ungu kjósendum sem innan hans vilja starfa mun það fólk leita annað. Þegar í dag er orðinn til verulegur hópur ungs fólks sem getur ekki hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Þá er ég ekki að tala um jaðarkomma og samsæriskenningalið. Ég er að tala um tiltölulega frjálslynt fólk sem sér flokkinn sem spillta valdaklíku með fráhrindandi öfgafullan ungliðaarm. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki efni á því að missa hina stóru frjálslyndu miðju íslenskra stjórnmála. Muni það gerast getur flokkurinn kvatt hið hefðbundna 40% fylgi sitt.
Skýtur það annars ekki skökku við að Ungir Jafnaðarmenn hafa nú boðið þetta fólk velkomið en að slík kveðja hefur enn ekki borist frá Heimdalli sjálfum, félaginu sem fólkið var jú að ganga í? Það var gefið út fyrir kosningar að það mundi verða „fyrsta verk“ nýrrar stjórnar að hringja í þá sem sóttu um að skrá sig og taka þá inn í flokkinn. Nú þegar meira en vika er liðin frá kosningum hefur ný ritstjórn frelsis.is verið skipuð og vinna við gagnrýni fjárlagafrumvarps ráðherra Sjálfstæðisflokksins er komin á fullt skrið hefur en ekki verið hringt í þessa 1152 einstaklinga sem sóttu um inngöngu í flokkinn (að mér vitandi a.m.k.) Enda segir mér svo hugur um að það muni ekki vera gert. Fólkið verður einfaldlega skráð inn í Heimdall án nokkurra spurninga líkt og alltaf hefur verið gert hingað til. Aðalfundi er lokið – tilganginum er náð – fólkið fékk ekki að kjósa.
Ég þakka Ungum Jafnaðarmönnum indælt boð. Það er gaman að vita að fólk í stjórnmálum hafi enn þá húmor. En fyrir mína hönd ætla ég að afþakka. Ég held að farsælast sé að hafa hægrimenn í hægriflokkum og vinstrimenn í vinstriflokkum. Og ég er frjálslyndur hægrimaður. Ég ætla að láta á það reyna hvort þau viðhorf eigi ekki heima innan Sjálfstæðisflokksins.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021