„Það er gott að vera Íslendingur.“ Þetta veit hvert íslenskt mannsbarn enda skilaboð sem maður fær ósjaldan að heyra, hvort sem er í skóla eða í daglegu áreiti fjölmiðla í hvaða formi sem er. Jú vissulega heyrast óánægjuraddir af og til en þrátt fyrir þær eru flestir sammála um að það sé gott að vera Íslendingur, Ísland sé fallegt land og íslenskt samfélag gott samfélag. Það segum við! En eru allir sammála okkur!
Það hefur vart farið framhjá mörgum að í fjölmiðlum síðustu daga hefur mikið verið talað um útlendinga- og kynþáttahatur á Íslandi. Slagsmál hafa brotist út í úthverfum borgarinnar á milli fólks af mismunandi þjóðernum og augljóst að víða vantar uppá umburðarlyndi og náungakærleika í hið „frábæra“ íslenska samfélag sem við erum svo „heppin“ að vera hluti af.
Íslendingar virðast oft hafa viljað loka augunum fyrir því að hér á landi sé til staðar vandamál eins og útlendinga- eða kynþáttahatur. Slíkir hlutir séu bara til í útlöndum og í bíó. Útlendinga- og kynþáttafordómar er þó raunverulegt vandamál hér á landi sem verður að taka föstum tökum. Móta verður heildstæða markvissa stefnu, ekki bara gagnvart innflytjendum, heldur einnig gagnvart Íslendingum. Stefnu sem teygir sinn inn á yngstu stig menntakerfisins, inn í öll trúarbrögð og í hvers manns eyru. Menntun og uppfræðsla verður að vera einn meginþátturinn er baráttunni við útlendinga- og kynþáttafordóma þar sem ein meginástæða fordóma er hræðslan við hið óþekkta.
Þegar rætt er um menntun og uppfræðslu í þessu sambandi má ekki gleyma mikilvægi óformlegrar menntunar. Menntun átt sér stað á fleiri stöðum en einungis í skólastofunum. Hér í Reykjavík er starfrækt unglingastarf sem ber yfirskriftina „Adrenalín gegn rasisma“ og er pistlahöfundur svo lánsamur að hafa fengið að taka þátt í því starfi síðan í haust. Adrenalínið er starfrækt fyrir unglinga úr nýbúadeild Austurbæjarskóla annars vegar og unglinga úr Laugarlækjarskóla hins vegar. Markmið starfsins er að mynda sameiginlegan vettvang fyrir unglinga af mismunandi uppruna, sem þó búa allir í sama samfélaginu, til að kynnast og þróa með sér umburðarlyndi og kærleika hvert til annars.
Fyrir nokkrum árum var farið að halda hinar svokölluðu Fjölmenningarhátíðir í bæjarfélögum úti á landi þar sem innflytendur kynntu sína menningu fyrir Íslendingum í formi matar, listviðburða o.fl. Fjölmenningarhátíðir eru e.t.v. ágætar eins langt og þær ná og alls ekki ætlunin að gera lítið úr slíku frumkvæði. Markmiðið verður hins vegar að vera stærra og meira. Nauðsynlegt er að skapa sameiginlegan vettvang innflytjenda og Íslendinga þar sem þeim gefst færi á að kynnast fleiru í fari hvors annars en einungis mat og listum. Á slíkum vettvangi er líklegt að niðurstaðan verði að það sé fleira sem sameinar okkur en sundrar okkur, fleira sem er líkt en sem er ólíkt.
Innflytjendur og menning þeirra er ekki eitthvað sem eigum að skoða bara með bros á vör einu sinni á ári. Innflytjendur eru hluti af samfélagi okkar og því ber okkur að koma fram við þá sem slíka og axla þá ábyrgð sem því fylgir.
Fjöldi innflytjenda hefur aukist gríðarlega hér á landi síðustu ár. Ísland stendur frammi fyrir sömu áskorun og margar aðrar þjóðir heims. Sú áskorun felst í að taka á móti nýjum meðlimum samfélagsins með opnum hug, mæta þörfum þeirra og þjóna þeim til að auðvelda þeim leiðina inn í íslenskt samfélag sem virkir meðlimir þess en ekki einungis sem hlutlausir áhorfendur, eða það sem verra er, útlagar.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008