Nú hefur verkfall Sjómannasambandsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins staðið yfir í rúman mánuð, en vélstjórar frestuðu verkfalli fyrr í vikunni eftir að hafa náð samkomulagi við útvegsmenn. Á morgun verða atkvæði um samning vélstjóra talin og verður spennandi að sjá hvort samningurinn verður samþykktur. Verði hann samþykktur er álit margra að sett verði lög á verkfallið.
Sævar Gunnarsson formaður Sjómannasambandsins og Grétar Mar Jónsson forseti FFSÍ hafa gagnrýnt samninganefnd vélstjóra harðlega fyrir að hafa samið af sér. Þeim virðist hins vegar ekki koma mikið til um stærstu breytinguna, að útvegsmenn hafa loks fallist á að tengja beint fiskverð betur við markaðsverð. Beint fiskverð er það verð sem útgerð fær fyrir fisk sem seldur er beint til vinnslustöðva en ekki á fiskmarkaði. Þetta verð er yfirleitt talsvert lægra en markaðsverð enda er í flestum tilfellum um að ræða að sama fyrirtækið rekur vinnsluna og fiskiskipið. Þetta hefur lengi verið eitt helsta hagsmunamál sjómanna og því mikilsvert að það hefi verið viðurkennt í samningum LÍÚ og Vélstjórafélagsins.
Þeir kumpánar Sævar og Grétar Mar virðast ekki átta sig á þessu, heldur hamra á því að í sumum tilfellum sé um launalækkun að ræða. Fyrstu viðbrögð Grétars Mar voru að þar sem gengissig hefði verið svo mikið undanfarið þýddi þetta launalækkun. Þótt Grétar hafi verið skipsstjóri til margra ára hefur hann ekki enn séð orsakasamhengið milli fiskverðs og gengis krónunnar. Hann vill í auka áhrif markaðarins á fiskverð en vill ekki að gengið hafi þar áhrif. Menn geta spurt sig hvort þessi lógík sé vænleg til árangurs í kjarasamningum.
Önnur meint launalækkun sem vélstjórar eiga að hafa samið um er vegna fækkunar í áhöfnum skipa. Vissulega eykst vinnuálag ef fækkað er í áhöfn að öllu öðru óbreyttu og deila má um það sem samningur vélstjóra felur í sér að fjórðungur hlutar þess sem fer úr áhöfninni að öðru óbreyttu renni til útgerðarinnar. Það sem Sævar og Grétar Mar hafa þó talað meira um í fjölmiðlum er að útgerðir græði á því ef fækkað er í áhöfnum vegna tækniframfara. Í samningi vélstjóra skiptist hlutur þess sem fer úr áhöfninni við tækniframfarir tiljafns milli áhafnar og útgerðar. Ég geri mér grein fyrir því að hvorki Sævar né Grétar Mar voru fæddir þegar gufuvélin kom til sögunnar og urðu því ekki vitni að þeim framförum sem hún olli. Ég býst þó við að þeir hafi frétt af þessu og fæ því með engu móti skilið sjónarmið þeirra. Það er augljóst að fyrirtæki munu ekki nýta sér tækniframfarir nema þau græði á því með einhverjum hætti. Ef gufuvélin hefði ekki leitt til aukinna afkasta og minni kostnaðar hefði hún aldrei verið notuð að neinu marki. Sævar og Grétar Mar virðast hafa það til hliðsjónar að meira máli skipti að fleiri menn séu í áhöfnum skipa heldur en að hver og einn fái hærri laun.
Verkfallið hefur ekki bara áhrif á sjómenn. Það hefur leitt til gegnislækkunar og þar af leiðandi hærra vöruverðs. Það hefur haft áhrif á fiskvinnslufólk í landi, sem hefur nú misst yfirvinnulaun og bónusa. Þjónustugreinar við sjávarútveg verða fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna legu skipanna og þess að útgerðarmenn halda að sér höndum í öllum fjárútlátum. Auk þessa má til gamans velta fyrir sér áhrifum þess á tekjur olíufélaganna og hvernig þau hyggjast bæta sér upp tekjumissinn. Verkfallið er því ekki einkamál sjómanna. Ábyrgð forystumanna þeirra er gríðarleg og mikilvægi þess að þeir séu traustsins verðir er hægt að mæla í milljörðum króna.
Ég hef aldrei verið hallur undir LÍÚ enda hefur mér oft þótt að það hafi undanfarna áratugi oft leitt taum stærri útgerða en ekki hugsað eins mikið um hinar fjölmörgu smærri útgerðir. Ég hef haft mikla samúð með málstað sjómanna, enda hef ég sjálfur verið á sjó og félagi í einu aðildarfélaga Sjómannasambandsins. Nú hefur hins vegar keyrt um þverbak. Ég hef ekki trú á að kröfur Sjómannasambandsins og FFSÍ séu í takt við raunveruleikann. Auk þess hefur LÍÚ komið talsvert til móts við kröfurnar í samningnum við vélstjóra. Í kjaradeilum gefur annar aðilinn aldrei alveg eftir.
Auk þess hve fast er haldið í kröfurnar virðist framganga Grétars Mar Jónssonar forseta FFSÍ í viðræðunum hafa verið einkennileg. Hann virðist frekar vera í einhvers konar stríði við LÍÚ en samningaviðræðum og það virðist á mörkunum að menn talist yfir höfuð við. Frá heimildarmönnum Deiglunnar heyrist að Grétar sé mjög umdeildur innan FFSÍ og hann hafi einkum stuðning frá Vestfjörðum og þeim sem harðastir eru gegn kvótakerfinu og jafnvel þeim sem ekki taka lög og reglur um löndun afla alltof hátíðlega. Grétar Mar var einmitt í öðru sæti á lista Frjálslynda flokksins á Reykjanesi í síðustu Alþingiskosningum, á eftir engum öðrum en Valdimar jóhannessyni auk þess að vera í framkvæmdastjórn flokksins.
Hvað sem öðru líður um kröfur sjómanna, stífni LÍÚ og kvótakerfið í heild, held ég að tími sé kominn fyrir háseta og yfirmenn á fiskiskipum að endurskoða hverja þeir velja sem fulltrúa sína. Þótt ég sé andvígur því að sett séu lög a verkfall sjómanna get ég ekki séð að annar kostur sé í stöðunni ef ekki fer að þokast í átt að samkomulagi. Hagsmunirnir í húfi fyrir allt þjóðfélagið eru einfaldlega of stórir til að menn notfæri sér ástandið í krossferð gegn kvótakerfinu.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021