Í fyrradag (1. október) gengu í gildi lög í Danmörku sem leiða til þess að Svíar og jafnvel Norðmenn munu hópast til Danmerkur í tilteknum erindagjörðum. Með lögunum mun eftirsótt vara lækka í verði um u.þ.b. þriðjung í Danmörku, en sú vara er töluvert dýrari í Svíþjóð og margfalt dýrari í Noregi. Hér er ekki verið að ræða um Lego-kubba, ekki lifrakæfu og ekki danskar pylsur. Varan er sterkt áfengi.
Þann 1. október lækkaði áfengisgjald á sterka drykki í Danmörku um 45% og lækkaði verð á algengustu tegundunum við þetta um þriðjung. Pelinn af algengu gini (350 ml.) kostar eftir breytingu u.þ.b. 600 íslenskar krónur en kostaði fyrir breytingu um 900 krónur. Hinn danski ráðherra skattamála segir ástæður breytinganna þær að um áramót falli niður þær litlu takmarkanir sem hafa verið á því að Danir geti keypt áfengi í Þýskalandi, svokölluð 24 tíma regla. Til að koma í veg fyrir að Danir stunduðu enn meiri áfengisviðskipti yfir þýsku landamærin eftir áramót en þeir gera nú þegar, greip danska ríkisstjórnin til þess ráðs að lækka áfengisgjaldið um 45%.
Búist er við því að neysla sterks áfengis aukist við þetta í Danmörku um 2,5 milljónir lítra á ári. Hver Dani drekkur nú um 12 lítra af hreinu áfengi á ári og þykir mörgum nóg um. Bindindishreyfingin og heilbrigðisstarfsmenn hafa gagnrýnt breytinguna harkalega enda eiga t.d. danskir unglingar Evrópumet í drykkju. Samkvæmt könnunum hefur þriðji hver 15-16 ára Dani verið undir áhrifum áfengis minnst þrisvar á undanförnum mánuði. Auk þess er það svo að 20. hvert dauðsfall í Danmörku er rakið til áfengis og fjórða hvert dauðaslys í umferðinni.
En hvorki Svíar né Norðmenn hafa áhyggjur af þessari tölfræði. Svíar komu í gær og í fyrradag í hópum yfir Eyrarsund til að fjárfesta í sterku brennivíni og miklu magni af því. Þeir gengu um götur Helsingjaeyrar með vagna og fylltu þá af bjór og sterku áfengi. Þeir tóku ferjuna yfir. Sumir höfðu tjaldið meðferðis og tjölduðu á tjaldstæði í bænum. Svíarnir gleðjast yfir lækkuninni og auðvitað dönsku vínkaupmennirnir líka. Kaupmennirnir búast við því að þéna 10-20% meira á mánuði eftir breytinguna.
En auðvitað er þetta hálfkyndugt allt saman. Hin misháu verð hafa leitt til þess í gegnum tíðina að Norðmenn hafa farið yfir til Svíþjóðar til að kaupa áfengi, Svíar hafa farið til Danmerkur í sömu erindagjörðum, og Danir yfir til Þýskalands. Það vantar bara að Íslendingar fljúgi til Færeyja. Nei, það gengur víst ekki, „tollurinn“ kemur í veg fyrir það. Skál!
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006