Yfirlýsing frá framboði Bolla Thoroddsen

Framboð Bolla Thoroddsen til stjórnar í Heimdalli hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þeirrar ákvörðunar stjórnar Heimdallar að meina stuðningsmönnum hans aðild að félaginu.

Fólk er hvatt til þess að senda mótmæli vegna framgöngu stjórnar félagsins með því að skrá mótmælin á vefsíðu framboðs Bolla, www.blatt.is.

Texti mótmæla sem nú er safnað undirskriftum vegna er eftirfarandi. Afrita má textann hér og líma í skeytið.

Við undirrituð, ungir sjálfstæðismenn í Reykjavík, sem höfðum hug á því að styðja framboð Bolla Thoroddsen til stjórnar Heimdallar, mótmælum harðlega þeim óforsvaranlegu vinnubrögðum stjórnar Heimdallar sem hafa komið í veg fyrir eðlilega kosningu nýrrar stjórnar.

Ákvörðun stjórnarinnar um að meina stórum hópi ungs fólks aðild að félaginu er ekki hægt að kalla annað en ofbeldi gagnvart því unga fólki sem vildi hafa áhrif á störf félagsins með því að taka þátt í því, sem átti að vera opin og lýðræðisleg ákvörðun, um hvaða einstaklingar ættu að sitja í stjórn félagsins á komandi starfsári.

Þessi svívirða er ekki aðeins Sjálfstæðisflokknum til mikils tjóns, heldur stríðir hún bersýnilega gegn öllum þeim grundvallargildum og hugsjónum sem flokkurinn kennir sig við og byggist á. Þetta framferði er fráfarandi formanni og stjórn til mikillar skammar og varpar dökkum skugga á kjör nýrrar stjórnar, sem ekki er með nokkru móti hægt að segja að hafi hlotið umboð frá almennum félagsmönnum til þeirra starfa.

Yfirlýsing:

Vegna ákvörðunar fráfarandi stjórnar Heimdallar um að meina ríflega eitt þúsund nýjum félagsmönnum í Sjálfstæðisflokknum, sem skráð sig höfðu í flokkinn fyrir auglýstan frest, aðild að Heimdalli og þar með þátttöku stjórnarkjöri í dag sjáum við undirrituð okkur tilneydd að draga framboð okkar til stjórnar félagsins til baka að þessu sinni.

Þessi ákvörðun er okkur ekki léttbær en í ljósi þeirra svika og andlýðræðislegru vinnubragða, sem fráfarandi stjórn, og formaður hennar, yfirlýstur stuðningsmaður mótframboðsins, hafa beitt okkur og stuðningsmenn okkar, verður ekki séð, að boðaður aðalfundur sé haldinn á lýðræðislegum og eðlilegum forsendum. Við slíkt verður ekki unað.

Í tilkynningu frá stjórn Heimdallar er því haldið fram að misbrestur sé á nýskráningum í flokkinn í aðdraganda aðalfundar. Í gær og í fyrradag fékk fjöldi stuðningsmanna framboðs okkar símtöl frá framkvæmdastjóra Sambands ungra sjálfstæðismanna þar sem lagt var að þeim að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum. Hafa margir haft samband við okkur og kvartað undan dónaskap í þessum símtölum og enn fremur virðist sem vísvitandi hafi verið villt um fyrir fólkinu, sem nýverið hafði skráð sig í flokkinn. Nýskráðir flokksmenn voru m.a. spurðir hvort þeir hefðu í hyggju að vera í flokknum ævilangt. Ljóst er að mörgum nýjum félagsmönnum brá verulega í brún við þessa fyrstu viðkynningu sína af starfi Sjálfstæðisflokksins.

Þessi hegðun forsvarsmanna Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem flestir styðja annað framboðið til stjórnar, undirstrikar að fráfarandi stjórn hafði gefið upp alla von um að vinna sigur í sanngjörnum og lýðræðislegum kosningum. Í stað þess að tryggja uppbyggingu félagsins hefur verið tekin meðvituð ákvörðun um að veikja það í annarlegum tilgangi.

Í aðdraganda aðalfundar höfum við lagt áherslu á að opna Heimdall, félag ungra sjálfstæðismanna, fyrir nýjum félögum. Í því skyni hefur fjöldinn allur af ungu Sjálfstæðisfólki, sem til þessa hefur ekki verið flokksbundið, en vill nú ganga til liðs við flokkinn með okkur og stuðningsmönnum okkar, ákveðið skrá sig í flokkinn. Þetta gerir það til þess að taka þátt í því uppbyggingarstarfi sem við teljum nauðsynlegt. Fráfarandi stjórn hefur nú hafnað liðsinni þessa ágæta fólks og meinað þeim aðild að Heimdalli með algjörlega fordæmislausum aðgerðum.

Þetta er ekki eina dæmið um andlýðræðisleg vinnubrögð og brot á þeim hefðum sem gilt hafa í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins: Í ofanálag hefur fulltrúum okkar framboðs verið meinaður aðgangur að félagatali, póstlistum í vörslu flokksins hefur verið beitt í þágu mótframboðsins, félagsheimili flokksmanna hefur verið nýtt til úthringinga í þágu þess og starfsmaður SUS notað vinnutíma sinn og aðstöðu til að vinna fyrir annað framboðið. Þrátt fyrir þetta höfum við haldið okkar striki í þeirri trú að lýðræðisleg vinnubrögð yrðu viðhöfð á aðalfundinum sjálfum og stuðningur við framboð okkar reyndist nægur á aðalfundi. Nú hefur keyrt um þverbak með því að stuðningsmönnum okkar, sem skrá hafa sig í sjálfstæðisflokkinn með lögmætum hætti, er meinað að taka þátt í starfi félagsins á aðalfundi.

Erfitt er að sjá hvernig þessi skrípaleikur í kringum aðalfund Heimdallar stuðlar að öflugra og farsælla starfi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þaðan af síður verður séð að þessi framganga sé í anda þeirrar lýðræðis- og frelsishugsjónar sem stoðir félagsins og Sjálfstæðisflokksins eru reistar á.

Ljóst er öllum þeim sem að starfi Heimdallar, og að undirbúningi aðalfundarins hafa komið, að sú stjórn sem kjörin verður í dag starfar ekki í umboði eðlilega framkvæmds aðalfundar.

Bolli Thoroddsen, Steinunn Vala Sigfúsdóttir, Brynjar Harðarson, Brynjólfur Stefánsson, Gísli Kristjánsson, Hreiðar Hermannsson, Margrét Einarsdóttir, María Sigrún Hilmarsdóttir, Sigurður Örn Hilmarsson, Stefanía Sigurðardóttir, Tómas Hafliðason, Ýmir Örn Finnbogason

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)