Nýlega úrskurðaði Kjaradómur að laun æðstu embættismanna ríkisins skyldu hækka í samræmi við almenna kjaraþróun síðustu misseri. Sú var tíð, að úrskurðir dómsins vöktu hörð viðbrögð ýmissa sjálfskipaðra talsmanna alþýðunnar. Enn ber eitthvað á þessu en skllningur almennings á þessum málum hefur aukist, þótt alltaf megi gera eina og eina frétt í gúrkutíð um þessar hækkanir.
Deiglan er almennt fylgjandi því, að ráðamenn þjóðarinnar hafi sæmilegar tekjur og telur að slíkt stuðli frekar að því að hæfari menn fáist til að gegna þessum störfum. Ef horft er yfir þingliðið má benda á ýmsa sem ekki eru verðugir þessara launa en aðrir mættu vera betur launaðir. Eftir því sem Deiglan kemst næst stendur þó ekki til, að árangurstengja laun þingmanna… Jákvæð afstaða Deiglunnar til launahækkana þessara aðila byggist fyrst og fremst á því, að þeir bera mikla ábyrgð í störfum sínum og þjóðin hefur treyst þeim fyrir sameiginlegum hagsmunum sínum. Það skýtur því nokkuð skökku við, að á toppi launapýramídans tróni sá eini af þessum aðilum sem gjörsamlega ábyrgðarlaus er í embættisverkum sínum og er í raun lítið annað en prjál og punt.
Ofan í kaupið hefur þetta tiltekna embætti ítrekað farið fram úr þeim heimildum sem því eru ætlaðar á fjárlögum og er í raun ótrúlegt til þess að hugsa, að skattgreiðendur skuli þurfa að borga allt uppihald fyrir vel menntaðan, miðaldra mann, sem býr í rúmgóðu húsi í nágrenni Reykjavíkur, og ber ekki framfærsluskyldu gagnvart einum eða neinum, auk þess að borga honum vel á aðra milljón króna á mánuði. Nú stendur yfir vinna við gerð fjárlaga fyrir árið 2002. Deiglan hvetur alla þá sem að þeirri vinnu koma til að meta vandlega hvort eitthvað réttlæti þetta prjál og punt sem embætti forseta lýðveldisins hefur orðið í seinni tíð
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021