Það er nokkuð merkilegt hvað íslenskir stjórnmálamenn einblína mikið á áliðnað sem eina orkufreka iðnaðinn á Íslandi. Menn láta sér ekki nægja að byggja enn eitt álverið í Reyðarfirði, með tilheyrandi virkjanaframkvæmdum, heldur verður nú einnig að stækka Norðurál. Stefnir ekki í nógu miklu þenslu í þjóðfélaginu?
Álvinnsla er hráefnisframleiðsla og er ekki líkleg til þess að “gera Íslendinga að ríkustu þjóð í heimi”. Við framleiðum nánast ekkert úr áli, flytjum það allt óunnið út og látum aðrar svinnari þjóðir um verðmætasköpunina. En sennilega er álframleiðsla lausn stjórnmálamanna á byggðaröskun og falli sauðkindarinnar – Ál fyrir rollur. Við ættum kannski að borga bændum fyrir að framleiða álrollur og láta svo ríkið markaðssetja þær í Bandaríkjunum? Það skilar ábyggilega jafn miklu.
Ef finna þarf orkufrekan iðnað væri e.t.v. skynsamlegt að dreifa áhættunni og horfa einnig til annarra leiða sem líklegri eru til að auka verðmætasköpun í landinu. Pistlahöfundur hefur áður bent á annan orkufrekan iðnað eins og framleiðslu á iðnaðardemöntum, sbr. pistil hér á Deiglunni fyrir liðlega tveimur árum:
…þrátt fyrir kosti þess að reisa hér álver verður því ekki neitað að lausnin er langt frá því að vera frumleg og ekki líkleg til að viðhalda hér hagvexti til framtíðar. Svo virðist sem Íslendingar séu enn að horfa til einhvers konar iðnbyltingar svipaðri þeirri sem aðrar vestrænar þjóðir gengu í gegnum á þarsíðustu öld. Álframleiðsla er hráefnisframleiðsla líkt og fiskveiðar og hefur þ.a.l. frekar takmarkaða vaxtarmöguleika. Álframleiðsla er heldur eini orkufreki iðnaðurinn sem völ er á. Við gætum hugsanlega horft til margra annarra iðngreina eins og framleiðslu demanta. Með nógu miklum hita og þrýstingi, þ.e.a.s. nógu mikilli orku, er hægt að breyta kolefni í demanta. Demantana er svo hægt að nota fyrir komandi tölvukynslóðir (sjá nánar grein á Deiglunni um demantaframleiðslu).
Fyrir áhugasama má svo við þetta bæta að í ágústmánuði síðastliðnum náðu Kínverjar töluverðum framförum í framleiðslu á Demöntum. Sjá grein á The Inquirer
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009