Frelsi frjálshyggjumanna

Næsta miðvikudag verður kosið í stjórn Heimdallar. Nokkrir framámenn í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins hafa kosið að beita sér, og embættum sínum, í þágu ákveðinna frambjóðenda. Í dag fjallar góðvinur Deiglunnar Svava Björk Hákonardóttir um framgöngu þeirra í aðdraganda aðalfundarins í sérstökum gestapistli.

Hinn nýkjörni formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, Hafsteinn Þór Hauksson hefur hafið störf. Fyrsta verk unga formannsins var að gerast stuðningsmaður ákveðinna einstaklinga sem eru að bjóða sig fram í stjórn Heimdallar f.u.s. Erfitt er að rökstyðja þá kenningu að með þessu athæfi sé formaðurinn að gegna því hlutverki sínu að laða fleiri ágæta einstaklinga inn í félagið,- þar sem ekki eru allir frambjóðendurnir svo lánsamir að hljóta náð fyrir augum hans.

Reyndar situr formaður SUS ekki einn að kjötkötlunum í þessari ævintýralegu framgöngu sinni, aðrir góðkunningjar Sambandsins hafa einnig ákveðið að slá skjaldborg utan um þessa sömu útvöldu frambjóðendur. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir – varaformaður SUS, Friðjón R. Friðjónsson – stjórnarmaður í SUS, Gisli Hauksson – stjórnarmaður í SUS, Helga Lára Hauksdóttir – stjórnarmaður í SUS, Jóhann Pétur Harðarson – stjórnarmaður í SUS og Jón Hákon Halldórsson sem einnig er stjórnarmaður í SUS hafa öll ákveðið að vera hlekkir í þessari sterku keðju stuðningsmanna. Ekki má þó gleyma sitjandi formanni Heimdallar, Magnúsi Þór Gylfasyni, og varaformanni hans, Helgu Árnadóttur, sem hafa ljáð stuðningslista þessu annars ágæta framboðs nöfn sín.

Augljós áhugi ofangreindra stjórnarmanna á að beita embættum sínum í þágu þóknanlegra frambjóðenda er þó æði vafasamur. Í besta falli hafa stjórnarmennirnir lagst saman undir feld, vegið og metið alla frambjóðendurna og ákveðið svo að koma okkur kjánaprikunum til bjargar með því að lýsa yfir stuðningi við þá heppilegustu. Í versta falli vilja þeir vera með puttana í því hverjir eru kosnir í stjórn fjölmennasta og áhrifamesta félagsins innan SUS.

John Locke sagði:

„Því þar sem ekki er ráð fyrir því gerandi að það sé vilji samfélagsins að löggjafinn hafi vald til að fyrirfara því sem fólk vildi sjá borgið með inngöngu sinni í það þá kemur löggjafinn á stríði milli sín og þegnanna.“

Þessi röksemdarfærsla á jafn vel við í stjórnmálum nútímans eins og þegar hún var skrifuð á sautjándu öld. Varla er hægt að búast við því af einstaklingum sem ákveða að ganga til liðs við hreyfingu sem kennd er við frjálshyggju og frelsi einstaklingsins að þeir láti það viðgangast að yfirstjórn félagsins fari sínu fram með takmarkalausri forræðishyggju.

Sennilega hafa þessir stjórnarmenn SUS og Heimdallar þó farið meira fram af kappi en forsjá í þessu tilfelli þar sem erfitt er að sjá það í fljótu bragði hvernig þeir ætla svo samstarf sitt við hina nýju stjórn Heimdallar,- verði úrslit þau að hinir samþykktu beri ekki sigur úr býtum.

Svava Björk Hákonardóttir

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Gestapistill (see all)