Mikið hefur verið rætt um frumvarp dómsmálaráðherra sem fól í sér hækkun refsirammans fyrir fíkniefnamisferli úr 10 árum í 12. Frumvarpið varð að lögum þann 30. apríl síðastliðinn. Stefna dómsmálaráðherra virðist vera sú að hækka almennt refsingar fyrir glæpi. Það skal ósagt látið hvort rétt sé að hækka refsingar fyrir fíkniefnabrot eða fyrir glæpi almennt en hins vegar felst töluverður tvískinnungur í stefnu dómsmálaráðherra.
Eins og allir vita er það hlutverk dómstóla að meta sekt eða sýknu manna að undan gegnum réttarhöldum. Menn eru yfirleitt á einu máli um að það sé mikilvægt að dómsvaldið sé sjálfstætt og óháð í störfum sínum, sérstaklega gagnvart framkvæmdarvaldinu. Nú geta afbrotamenn búist við því að þurfa eingöngu að afplána helming eða 2/3 hluta þess tíma sem dómurinn hljóðaði upp á. Það fer yfirleitt eftir alvarleika brotsins hvort menn afplána helming eða 2/3 en það heyrir til algjörra undantekninga ef menn þurfa að afplána allan dóminn. Þetta er óeðlilegt að tvennu leyti.
Í fyrsta lagi er það óeðlilegt að það er fangelsismálastofnun en ekki dómstólar sem stytta refsinguna. Fangelsismálastofnun heyrir undir framkvæmdarvaldið og er í þessum tilvikum að taka ákvarðanir um refsingu sem dómstólar ættu að taka. Enda hafa önnur ríki í auknum mæli tekið það upp að láta dómstóla koma að ákvörðunum um reynslulausn. Það verður að teljast eðlilegt þar sem dómstólar hafa áður komið að málinu, hlýtt á munnlegan framburð vitna og metið sekt eða sýknu. Dómstólar meta einnig við málsmeðferðina hvað kemur til álita við mat á refsihækkun og lækkun. Ef dómstólar kæmu að ákvörðun um reynslulausn þá hefði ákæruvaldið um leið aðkomu að málinu. Í réttarhöldum leggur ákæruvaldið málið upp gegn viðkomandi sakborningi og heldur á lofti rökum með og móti sekt sakbornings. Fangelsismálastofnun er ekki viðstödd flutning málsins fyrir dómstólunum og heyrir ekki munnlegan framburð sakbornings og vitna. Það er grundvallarregla í íslensku réttarfari að áður en dómstólar komast að niðurstöðu þá verða þeir að hlusta milliliðalaust á framburð vitna og sakborninga. Það er því mjög óeðlilegt að framkvæmdarvaldið hafi vald til að veita mönnum reynslulausn frá allt að helming fangelsisrefsingar án þess að hafa einu sinni verið við málsmeðferðina.
Í öðru lagi er það óeðlilegt að á Íslandi skuli það nánast vera regla að menn afpláni einungis helming eða 2/3 af fangelsisrefsingunni. Þetta hlýtur að skekkja töluvert þá mynd sem við höfum af refsingum á Íslandi þar sem dómar gefa ekki til kynna hvaða refsingu sakborningur mun í raun og veru að taka út. Það væri eðlilegra ef misræmið á milli dæmdar afplánunar og raunverulegrar afplánunar væri miklu minna og meginreglan yrði sú að menn myndu afplána mest allan refsinguna. Reynslulausn á rétt á sér en hún á ekki að vera meginregla og það á ekki heimila hana nærri því jafn snemma á afplánunartímanum og raun ber vitni. Einnig, eins og áður sagði, þá væri eðlilegt að dómstólar tækju ákvarðanir um reynslulausn.
Raunverulega er engin þörf á því að hækka refsiramman um tvö ár þegar fangar sem hafa gerst brotlegir við fíkniefnalöggjöfina munu líklegast ekki afplána lengur en 8 ár í skv. lagabreytingunni um hækkun refsirammans. Það hefði verið mun eðlilegra að taka á framkvæmd reynslulausna og gera 10 ára refsirammann raunverulegan þannig að þegar menn eru dæmdir í 10 ára fangelsi sé meginreglan sú að þeir sitji inni í 10 ár.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020