„Glatað tækifæri.” Þannig lýsir Arthur Laffer, einn helsti gúrú frjálshyggjumanna, skattalækkunum Bush. Að mati Laffer stóðu stjórnvöld í Bandaríkjunum frammi fyrir einstöku tækifæri um það leyti sem Bush tók við sem forseti. Horfur voru á stórfeldum afgangi á fjárlögum. Þennan afgang hefði verið unnt að nýta til þess að breyta skattkerfi Bandaríkjanna til hins betra með því að lækka þá skatta sem valda hvað mestri óhagkvæmni. Í stað þess var stærstum hluta þessa fjár sóað í skattalækkanir sem draga lítið sem ekkert úr því óhagkvæmni sem skattkerfi Bandaríkjanna hefur í för með sér.
Nú er um eitt og hálft ár er frá því að Bush varð forseti og óhætt er að segja að hann er á góðri leið með að skrásetja sig í sögubækurnar sem einn allra versti forseti Bandaríkjanna hvað efnahagsmál snertir. Fyrst voru það skattalækkanirnar sem samanstóðu að mestum hluta af styrkjum til fyrirtækja og stóreignafólks. Félagshyggjufólk hefði kosið að eyða fénu í að styrkja fjárhagslegar undirstöður lífeyriskerfisins og heilbrigðiskerfisins. Frjálslyndir hagfræðingar, eins og Laffer, hefðu kosið að verja peningunum í að lækka jaðarskatta til þess að draga úr óhagkvæmni skattkerfisins. En nei, ekki í þetta skiptið.
Síðan var það tollur á stál. Bush var vinsælli en nokkur annar forseti Bandaríkjanna hefur nokkru sinni verið. Það er hreint með ólíkindum að forseti í slíkri stöðu hafi kastað jafn mikilvægu prinsipp máli og frjáls verslun er fyrir borð til þess að þóknast sérhagsmunum kjósenda í Vestur Virginiu. Maður þorir ekki að hugsa út í hvað hann myndi gera er vinsældir hans dvínuðu.
Síðan var það nýtt bændafrumvarp. Aftur voru prinsipp látin fjúka til þess að þóknast sérhagsmunum. Frumvarpið jók til muna niðurgreiðslur og styrki til landbúnaðar. Sérstaklega athyglisvert er að það endurreisti styrki í nokkrum geirum landbúnaðar sem hætt var að styrkja um miðjan tíunda áratuginn. Bush þótti ekki tiltökumál að eyða með einu pennastriki þeim árangri sem hans eigin flokkur hafði barist erfiðri baráttu fyrir síðasta áratuginn.
Og á meðan á öllu þessu hefur staðið hafa útgjöld ríkisins blásið út. Útgjöld til varnarmála hafa vitaskuld stóraukist. En önnur útgjöld hafa einnig aukist ótrúlega hratt. Þannig hafa útgjöld ríkisins að undanskyldum varnarmálum, lífeyrismálum og heilbrigðismálum aukist um ríflega 25% á síðustu tveimur árum. En þetta er einmitt sá hluti fjárlaganna sem Bush segist ætla að lækka til þess að eiga fyrir meiri hernaðarútgjöldum.
Nú stefnir í að ríkissjóður Bandaríkjanna verði rekinn með 160 milljarða dala halla á þessu ári. Og í þessari viku er allt í hers höndum í bandaríska þinginu þar sem ríkissjóður Bandaríkjanna er um það bil að verða búinn að fylla þann kvóta af lánum sem þingið hafði samþykkt að leyfilegt væri að taka.
Það var kannski alltaf ljóst að Bush var enginn hugsjónamaður. En aldrei hefði mér dottið í hug að hann myndi stjórna af slíkri skammsýni og ganga jafn langt og raun ber vitni í því að tryggja sína eigin hagsmuni og hagsmuni síns fólks á kostnað almennings í Bandaríkjunum.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009