Múrena á hafsbotni, bíður færis.
|
Ekki hefur farið fram hjá neinum að miklar sviptingar hafa átt sér stað á hlutabréfamarkaði síðustu misserin. Hefur stríðið aðallega átt sér stað í gegnum fjárfestingafélagið Straum og Landsbankann hf. Í síðustu viku náði baráttan svo hámarki þegar flóknir samningar voru kunngerðir sem m.a. gerðu það að verkum að Eimskipafélagið er nú að stórum hluta í eigu Samson manna og Landsbankans, Straumur er stærsti hluthafinn í Flugleiðum og Sjóva verður gert að dótturfyrirtæki Íslandsbanka.
Við þennan gjörning rituðu margir undir dánarvottorð Kolkrabbans gamla, sem teygði anga sína í gegnum sterka samstöðu Eimskipa, Skeljungs og Sjóvár-Almennra. Kolkrabbinn samanstóð af mestu af tveimur ættum, Engeyjarættinni og H.Ben ættinni en aðilar þeim tengdir voru langstærstu hluthafarnir í Sjóvá. Engeyingar keyptu í síðustu viku H.Ben-inga út úr Sjóvá og fengu í staðinn um 10% hlut í Íslandsbanka. Kolkrabbinn hefur því engin tök í Eimskipafélaginu lengur og þar með talið Flugleiðum, allavega ekki eins bein völd, en Eimskip var stærsti hluthafinn þar (þó bera að athuga að Flugleiðahluturinn endaði í höndum Straums/Íslandsbanka). Í Viðskiptablaðinu í gær er einnig ýjað að því að vinslit hafi orðið milli H.Ben ættarinnar og Engeyjarættarinnar en þeirri fyrrnefndu tilheyrir m.a. Kristinn Björnsson fyrrum forstjóri Skeljungs. Sé þetta rétt er ljóst að gamli góði Kolkrabbinn er ekki samur og völd hans í íslensku viðskiptalífi langt í frá því þau sömu og áður. Spurningin er sú hvort hann hafi við þetta breyst í múrenu eða bara fiskifóður?
Í Svalur og félagar númer 17, Svamlað í söltum sjó, segir frá ævintýrum blaðamannanna Svals og Vals og baráttu þeirra við óþverrann Jón Harkan. Jón þessi var hinn mesti fauti og gekk í daglegu tali undir nafninu Múrenan. Líkingin var dregin af því að múrenan er fiskur sem felur sig í gjótum og klettaskorum í sjónum og lætur til skarar skríða þegar menn og dýr eiga síst von á. Læsir hún þá flugbeittum tönnunum um bráðina og gefur frá sér lamandi eitur svo að afar erfitt er að losa sig undan biti hennar. Sagan segir einnig að til að drepa múrenuna sé auðveldast að skera af henni aftari hlutann með sporðinum eða lemja fast í hana þar en við það drepst hún strax. Mun harðgerari er hún að framan og erfiðara að draga úr henni líftóruna með því að slá hana á höfuðið. Þess má geta að múrenan þykir þó góður matfiskur, sé hún elduð á réttan máta þannig að eituráhrifin hverfi.
Kolkrabbinn hefur misst völd en líklega er fásinna að tala um að hann sé dauður úr öllum æðum. Ítök hans leynast víða og líklega stóð hann fyrir því að Straumur keypti Flugleiðabréfin af Eimskip en ekki Bónusfeðgar sem buðu mun betur. Er þar skýrt dæmi um það að barátta um völd en ekki arðsemi ræður för á kostnað lítilla hluthafa. Við söluna á Sjóvá fékk H.Ben ættin um tvo milljarða króna og miðað við að Engeyjarættin muni eiga um 10% í sameinuðu félagi Íslandsbanka og Sjóvár Almennra er verðmæti þess hlutar því um sjö milljarðar miðað við sameiginlegt verðmat félaganna í síðustu viku. Þar fyrir utan er fjöldi fyrirtækja sem tengjast ættunum tveimur t.a.m. er H.Ben ættin stór hluthafi í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Það er því ljóst að aðilarnir sem áður voru kenndir við Kolkrabbann eru ekki á flæðiskeri staddir fjárhagslega.
Af ofangreindu að dæma er líklega erfitt að gefa út dánarvottorð á Kolkrabbann og þar með segja að hann sé ekki nema fiskifóður í dag. Nærri lagi er að líkja honum við múrenu sem hafi fengið högg á höfuðið en ekki sporðhlutann. Múrenu sem hefur farið í felur en mun tvímælalaust láta til skarar skríða þegar færi gefst til. Þá læsir hún tönnunum um bráðina og lamar hana, og eins og flestir vita er erfitt að losna undan biti múrennunnar!
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008